„Þú gætur aldrei vanist því að sjá fá­tækt fólk sækja matar­að­stoð. Það er þyngra en tárum taki. Ég er búin að vera í tólf ár og ég venst þessu aldrei,“ segir Anna Val­dís Jóns­dóttir, vara­for­maður og verk­efnis­stjóri Fjöl­skyldu­hjálpar Ís­lands á Suður­nesjum.

Yfir 200 fjöl­skyldur á Suður­nesjum fengu matar­að­stoð fyrir helgi og þurfti að vísa um fimm­tíu frá á fimmtu­daginn því það var ekki nóg til.

„Manni finnst þetta bara orðið svo ljótur heimur. Það vantar alla sam­kennd í fólk og kær­leika sem var hérna á árum áður. Þetta eru orðnir breyttir tímar,“ segir Anna Val­dís enn fremur.

„Það voru 209 fjöl­skyldur og ein­staklingar sem komu á fimmtu­daginn og við urðum að vísa fólki frá. Allur maturinn var bara búinn í húsinu. Það hafa síðan komið nokkrar fjöl­skyldur hingað í dag sem við höfum þurft að vísa frá,“ segir Anna Val­dís og bætir við að staðan sé vægast sagt mjög slæm.

Engin út­hlutun var hjá Fjöl­skyldu­hjálp Ís­lands á Reykja­nesi í dag. Í miðju samtali við blaðamann heyrðist í manni vera spyrjast fyrir um mataraðstoð en Anna Valdís varð að tilkynna honum að allur maturinn væri búinn.

Hún segir að ó­vissa ríkir um fram­haldið og að ekki sé búið að taka á­kvörðum um hve­nær næsta út­hlutun verður.

„Þetta kostar allt mikla peninga og við erum ekki með neitt peninga­tré,“ segir Anna Val­dís.

Engin að­stoð frá sveitar­fé­lögunum á Suður­nesjum

Fjöl­skyldu­hjálp Ís­lands á Reykja­nesi er stað­sett í Kefla­vík en Anna Val­dís segir að fjöl­skyldurnar sem leita til þeirra komi frá öllum sveitar­fé­lögunum á Suður­nesjum. Þrátt fyrir fyrir­spurnir Fjöl­skyldu­hjálpar hefur engin fjár­hags­að­stoð borist.

„Þetta er mjög slæmt. Við höfum ekki fengið neina að­stoð frá neinu sveitar­fé­laganna hérna. Það hlýtur að vera mikil hjálp að hafa okkur því skjól­stæðingar okkar koma úr öllum sveitar­fé­lögunum á Suður­nesjum. Það eru Vogar, Grinda­vík, Njarð­vík, Garður, Reykja­nes­bær og Sand­gerði. Þetta er allt fólk sem leitar hingað,“ segir Anna Val­dís.

Spurð um hvort Fjöl­skyldu­hjálp hafi óskað eftir að­stoð frá sveitar­fé­lögunum, segir hún svo vera.

„Við erum búin að leggja inn fyrir­spurnir en fólk bara getur ekki sett sig í þessa stöðu. Þeir sem eru hátt­settastir hjá bæjar­fé­lögunum, kannski með eina til tvær milljónir á mánuði, þeir geta ekki sett sig í þessi spor að standa í röð með fólki sem er kannski með 220 þúsund krónur í laun.“

„Það hefur enginn í bæjar­fé­lögunum látið sig þetta varða. Það hefur enginn af bæjar­stjórunum í þessum sveitar­fé­lögum komið hingað til að skoða starfið,“ segir Anna Val­dís.

Í kvöldfréttum RÚV var greint frá því að hátt í fimmtíu manns voru mætt í röð fyrir utan Fjölskylduhjálp í Keflavík um hálftíma áður en úthlutun átti að hefjast á fimmtudag.
Ljósmynd/skjáskot

Ó­sátt með um­ræðuna um út­lendinga

Helmingur at­vinnu­lausra á Suður­nesjum eru út­lendingar og er Anna Val­dís ekki á­nægð með hvernig um­ræðan um út­lendinga hefur verið í þessu sam­hengi síðustu daga.

„Það er alltaf verið að tala um að það séu svo margir út­lendingar í röðunum okkar en hvernig má það vera? Við erum að þiggja vinnu frá þessu fólki í lág­launa­störfin okkar. Pól­verjar, Lit­háar og fólk sem kemur frá austan­tjalds­löndunum sem er búið að búa hérna í jafn­vel tuttugu ár og borga skatta. Auð­vitað eiga þau rétt á að fá at­vinnu­leysis­bætur eins og aðrir.“

„Þetta er fólkið sem er búið að vera vinna lág­launa­störfin upp á flug­vellinum og annars staðar og það er búið að segja þeim öllum upp, auð­vitað kemur þetta fólk í raðirnar hjá okkur,“ segir Anna.

„Þetta kemur okkur öllum við“

Aða­l­úthlutun Fjöl­skyldur­hjálpar á Suður­nesjum fór fram á fimmtu­daginn en um 40 fjöl­skyldur hafa verið að sækja matar­að­stoð dag­lega, fimm daga vikunnar, síðan í apríl.

„Nú er bara staðan þannig að við vitum ekki hve­nær við getum byrjað að kaupa inn aftur. Við getum ekki farið í aðra stóra út­hlutun og ekki hjálpað fjör­tíu manns á dag eins og áður,“ segir Anna Val­dís. „Þetta kemur öllum við. Þetta er ekki bara einka­mál okkar hérna í Fjöl­skyldu­hjálpinni.“

Hún segir að Fjöl­skyldu­hjálp muni reyna að standa fyrir annarri út­hlutun í októ­ber en óvssia ríkir um hversu stór­tæk hún verður.

„Við þurfum bara að safna peningum til að geta gert meira, við þurfum að kaupa meiri­hlutann af mat­vörunum. Fólk heldur að þetta sé ríkis­styrkt og við fáum allt gefins en það er bara miskilningur,“ segir Anna Val­dís.

Fjöl­skyldu­hjálp er með markað til að safna pening og vinna nú að kerta­gerð fyrir jólin. „Við erum alltaf að reyna afla meiri fjár til að geta gefið fleirum. Við vitum ekki ná­kvæm­lega hvernig fram­haldið verður og sér­stak­lega jólin. Við bara hræðumst þetta allt saman,“ segir Anna Val­dís að lokum.