Þrýstingur er meðal eigenda í Festi um að knýja fram hluthafafund vegna starfsloka Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra. Viðmælendur Fréttablaðsins segja óvarlegt að álykta um tengsl milli starfslokanna og Vítalíumálsins.

Kauphöllin er með Festi til skoðunar eftir starfslok Eggerts. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Birtu, sem á stóran hlut í Festi, segir mörgum spurningum ósvarað. „Við erum að ræða þetta mál, við formaður og varaformaður Birtu. Ég á bráðlega von á niðurstöðu,“ segir Ólafur, spurður hvort farið verði fram á aukahluthafafund.

„Okkur finnnst að það verði að passa upp á jafnræði hluthafa. Halda hluthöfum upplýstum svo ekki bara sumir heldur allir sitji við sama borð,“ bætir Ólafur við. Ein spurningin snýr að því að á sama tíma og Eggert skilaði rekstrarlegu góðu búi fær hann reisupassann. Festi hefur gefið út að ágætt sé að skipta um forstjóra á sjö ára fresti. Margir forstöðumenn fyrirtækja í Kauphöllinni hafa setið mun lengur í forstjórastöðu.

Þá er ósamræmi milli tilkynningar til Kauphallarinnar, þar sem sagði að Eggert hefði sjálfur sagt upp og þess sem síðar hefur komið á daginn. Kauphöllin hefur því til skoðunar hvort um villandi upplýsingar hafi verið að ræða.

Hilmar Harðarson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, baðst undan viðtali, þar sem hann hefði ekki kynnt sér málið nægilega vel. Hann sagðist vera að afla upplýsinga.

Edda Falak.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fjölmiðlar hafa fjallað um að Vítalía Lazareva hafi sagt opinberlega að Eggert hafi átt fund með henni og aðgreint sig frá öðrum fyrirtækjum viðskiptalífsins með góðum viðbrögðum, þegar fjórmenningarnir sem sakaðir voru um að hafa farið yfir mörk stigu til hliðar. Þórður Már Jóhannesson, sem var formaður stjórnar hjá Festi, áður en Vítalíumálið kom upp, er stærsti hluthafi félagsins, ef undan eru skildir lífeyrissjóðir.

Edda Falak, fjölmiðlakona og þáttastjórnandi Eigin kvenna, segir of snemmt að álykta hvort tengsl séu milli Vítalíumálsins og afdrifa Eggerts.

„Þórður og félagar, ég held að þeir séu ekkert mættir aftur við völd. Ég sé ekki að þetta sé bakslag í #MeToo þótt einum hvítum karlmanni hafi verið vikið úr forstjórasæti, það er ekki sérstakt áhyggjuefni,“ segir Edda Falak.

„Ég sé ekki að þetta sé bakslag í #MeToo þótt einum hvítum karlmanni hafi verið vikið úr forstjórasæti.“

Stjórnin hafnar tengslum uppsagnar við hneykslismál

„Stjórnin stendur við ákvörðun sína og byggir hana á því mati að félagið standi nú á tímamótum eftir mörg ár uppbyggingar og mótunar,“ segir í yfirlýsingu sem stjórn Festi sendi frá sér í gær.

„Hluthafar geta að sjálfsögðu haft aðra skoðun á þessu máli og komið þeirri skoðun á framfæri við stjórn eftir viðeigandi boðleiðum. Erfitt er hins vegar að taka það samtal í smáatriðum á hluthafafundi, þar sem til staðar eru, auk hluthafa, fjölmiðlar og fulltrúar samkeppnisaðila,“ segir stjórnin sem hafnar því að starfslok forstjórans, sem stjórnin hafi haft forgöngu um þótt hann hafi sagt upp sjálfur að eigin ósk, tengist máli Þórðar Más Jóhannessonar, sem sagði af sér stjórnarformennsku í félaginu eftir ásakanir Vítalíu Lazarevu um misnotkun.

„Tenging þessa máls við mál fyrrverandi stjórnarformanns, aðdraganda afsagnar hans, og fleiri vangaveltur af þeim meiði, eiga sér hins vegar enga stoð í raunveruleikanum og er vísað algjörlega á bug,“ segir stjórnin.