Hér eru fyrstu opinberu myndirnar af Porsche Macan rafútgáfunni. Að sögn framleiðandans er þróunarferli innanhúss lokið og tími til kominn að byrja alvöru prófanir á bílnum á vegum úti. Porsche Macan EV mun verða frumsýndur árið 2023 á nýjum rafbílaundirvagni Porsche sem kallast PPE. Hann mun verða með sama 800 volta rafkerfi og Porsche Taycan að sögn þróunarstjóra Porsche, Dr. Michael Steiner.

Eins og sjá má er prófunarbúnaður bílsins flókinn og fyrirferðarmikill.

Bíllinn mun breytast nokkuð í útliti og mun hafa mjórri aðalljós, þótt límmiðar af stærri ljósum reyni að sýna annað á myndunum. Eins verður þaklína hans meira hallandi niður á við sem mun gefa honum sportlegra útlit. Ásamt þessum nýja rafbíl verður önnur kynslóð Macan einnig búin bensínvélum, bæði fjögurra og sex strokka. Þótt það hafi ekki verið staðfest enn þá er líklegt að um talsvert breytta útgáfu af núverandi bíl verði að ræða. Verður hann seldur þannig á meðan næg eftirspurn er eftir honum. Porsche Macan hefur verið einn vinsælasti bíll merkisins og því skiptir máli hvernig til tekst. Árið 2019 seldi Porsche meira en 100.000 Porsche Macan bíla.