Umframdauðsföll voru 30,3 prósent á Íslandi um áramót og hefur hlutfallið aldrei verið hærra síðan faraldurinn hófst. Fyrra met var í ágúst síðastliðnum en þá voru umframdauðsföll 16,9 prósent. Umframdauðsföll er tól sem notað hefur verið til að sýna fram á raunverulegan kostnað Covid-19 faraldursins í mannslífum talið.

Hlutfallið reis mjög hratt undir lok seinasta árs, en í október voru afar fá dauðsföll, 14,1 prósenti minna en í venjulegu árferði. Viðmiðunin eru árin 2016 til 2019. Á þeim tíma var Ísland eitt örfárra Evrópuríkja án umframdauðsfalla.

Þróunin snerist hins vegar við og um áramótin var aðeins Slóvakía með hærra hlutfall en Ísland. Meðaltal Evrópu var þá orðið 22,7 prósent. Umframdauðsföllum hefur fækkað mjög hratt á meginlandi Evrópu og í janúar var hlutfallið komið niður í 7,7 prósent. Janúartölurnar fyrir Ísland liggja þó ekki fyrir.