María Edwards­dóttir fram­kvæmdar­stjóri Þróttar segir að fé­lagið hafi marg­oft hringt í lög­reglu vegna manns sem ógnar öryggi barna á svæðinu. Hún segir að lögreglan bregðist fljótt við kvörtunum vegna mannsins, en alltaf kemur hann aftur.

Í dag var greint frá því að móðir á svæðinu hyggst kæra manninn, en hann á­reitti dóttur hennar og vin­konur sem voru við æfingar á í­þrótta­svæði Þróttar. Hann kallaði á þær og sýndi þeim kyn­færin sín.

„Þetta er búið að vera við­varandi í svo langan tíma, við vitum ekki lengur hvað við eigum að gera,“ sagði íbúi á svæðinu og móðir stelpunnar.

„Við höfum marg­oft hringt í lög­reglu vegna á­bendinga iðk­enda og for­eldra um drykkju­læti og strípi­hegðun úti­gangs­manns sem hefur vanið komur sínar í Laugar­dalinn,“ segir María, en maðurinn birtist alltaf aftur eftir nokkra daga, þrátt fyrir að lög­reglan hafi oft haft af­skipti af honum.

„Það virðast engin úr­ræði til­tæk til að koma í veg fyrir að hann sé sí­endur­tekið til ama í kringum æfinga­svæði barnanna,“ segir hún.

Mikil um­ræða á hver­fagrúppu

Mikil um­ræða hefur skapast um manninn á hver­fagrúppu Laugar­dals á Face­book. Þar lýsa þau yfir mikilli þreytu vegna málsins.

„Hvernig er ekki hægt að stoppa þennan mann?,“ spyr til dæmis einn íbúi en lög­regla virðist vera ráða­­laus vegna málsins. „Held að það sé lítið hægt að gera annað en brýna fyrir börnunum að tala alls ekki við hann,“ segir annar íbúi.