Hagfræðingurinn Þröstur Ólafsson greindi frá brösugri ferð í Sundhöllina í Facebook-færslu þar sem hann lýsir því að það hafi þurft að sauma í hann 14 spor eftir að hafa fallið um listaverk í anddyri Sundhallarinnar í morgun.

„Ég gekk útúr Slysó með 14 spor frá kjálka og niður á háls. Segið svo að listaverk geti ekki verið aggressív,“ segir Þröstur á léttan máta í færslunni sem sjá má í heild sinni hér fyrir neðan.

Þrátt fyrir það var Þröstur sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Dagsbrúnar og fastagestur í Sundhöllinni brattur þegar Fréttablaðið ræddi við hann í kvöld.

„Ég finn ennþá fyrir þessu, enda talsvert af sárum,“ segir Þröstur, aðspurður hvernig heilsan er þegar komið er að kvöldi en hann segist ekki hafa velt því fyrir sér hvað listaverk væri að gera á þessum stað, þrátt fyrir að listaverk séu ekki iðulega geymd í Sundhöllinn.

„Ég var nú ekkert að spyrjast fyrir um það í morgun. Þau hringdu bara í sjúkrabíl og ég hef ekkert farið aftur,“ segir Þröstur sem var ekki viss hvaðan listaverkið væri.

„Ég þekki ekki listaverkið, en þetta voru einhverskonar stólar sem ég tók ekki betur eftir en að ég féll um þá.Það var svo mikið myrkur og rigning að ég sá þá illa. Þetta er samt búið að vera þarna í svona tvo mánuði,“ segir Þröstur og heldur áfram:

„Það eru mjög hvassir oddar á þessu, þannig þegar maður dettur á þetta er maður strax búinn að meiða sig,“ segir Þröstur um atvikið.