Öllum þeim sem eru með arfgengu íslensku heilablæðinguna verður boðin þátttaka í rannsókn á nýju lyfi. Verið er að sækja um leyfi fyrir rannsókninni frá Lyfjastofnun Íslands.
Eftir að nýja lyfið, sem er afleið af lyfinu N-acetylcystein, hefur verið prófað gegn arfgengu íslensku heilablæðingunni verður virkni þess gegn Alzheimir-sjúkdómum rannsakaður.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem tekið er viðtal við Hákon Hákonarson, forstjóra erfðarannsóknarmiðstöðvar barnaháskólasjúkrahússins í Fíladelfíu í Bandaríkjunum og stofnandi lyfjaþróunarfyrirtækisins Arctic Therapeutics sem er með höfuðstöðvar á Akureyri.
Hákon segist hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir um lyfið en fjallað var um rannsóknir Hákonar á lyfinu í bandaríska dagblaðinu USA Today.
Að sögn Hákonar virðist nýja lyfið vera með áhrifameiri virkni og komast auðveldar inn í taugafrumur í heilanum. Enn sé mikil vinna fram undan að þróa lyfið í meðferð á sjúklingum.
Einnig stefnir Hákon á að rannsaka áhrif lyfsins á hópa í Evrópu sem hafa sjúkdóma sambærilega arfgengu íslensku heilablæðingunni. Hann telur líklegt að lyfið verki eins á þá sjúkdóma.