Ný rannsókn vísindamanna sprotafyrirtækisins 3Z lofar góðu hvað varðar lyfjagjöf fyrir þá sem eru með ADHD. Hafa þeir prófað stór lyfjasöfn á sebrafiskum til að finna þau lyf sem henta best.

„Ef þetta sýnir góða virkni í mönnum, sem eru góðar líkur á, þá myndi þetta nýtast stórum hópi ADHD-sjúklinga,“ segir Haraldur Þorsteinsson, rannsóknar- og þróunarstjóri og einn af stofnendum 3Z sem er sprotafyrirtæki sem varð til í Háskólanum í Reykjavík.

Í dag er metýlfenídat notað gegn ADHD. En það er örvandi og hefur nokkuð miklar aukaverkanir, svo sem svefntruflanir, svefnleysi og minnkun matarlystar. Þá er einnig hætta á misnotkun. Þar að auki virka lyfin aðeins fyrir um 65 prósent sjúklinga því stór hópur svarar þeim ekkert sérstaklega vel.

Vísindamennirnir í 3Z hafa skimað stór lyfjasöfn í sebrafiskum til að þrengja hópinn. Það er, þau lyf sem fiskarnir svara vel eru prófuð áfram í rottum eða músum.

„Sebrafiskar og menn hafa mjög skyld erfðamengi,“ segir Haraldur. „Samsvörunin er yfir 80 prósent. Þeir fjölga sér mjög hratt og við getum gert allar okkar mælingar í seiðum.“ Sífellt sé verið að nota sebrafiska meira og meira í lífvísindum, sérstaklega taugavísindum. En almenningur þekkir þessa suður­asísku fiska einna helst úr gullfiskabúrum.

Vísindamenn 3Z nota sebrafiska mikið, en fyrirtækið sérhæfir sig í lyfjaþróun tauga- og geðsjúkdóma og -raskana. Meðal annars hafa þeir gert rannsóknir á MND- og Parkinsonsjúkdómunum.

Í þessari rannsókn, sem birt var í vísindatímaritinu Neuro­psycho­pharmacology fyrir skemmstu, eru helstu niðurstöðurnar þær að fjögur áður þekkt lyf og eitt nýtt lyf gefi góða svörun gegn ADHD. Þessi áður þekktu lyf eru í dag notuð gegn of háum blóðþrýstingi.

„Þetta eru lyf sem hafa verið lengi á markaði og geta verið endurskilgreind sem ADHD-lyf,“ segir Haraldur. Þetta eru ekki örvandi lyf og þeim fylgir því ekki sama hætta á misnotkun. Það er, þau hafa ekki bein áhrif á dópamínmóttakara í heilanum. Aukaverkanirnar eru einnig vel þekktar og eru minni en þær sem fylgja metýlfenídati.

Spurður um næstu skref segir Haraldur að það séu prófanir á mönnum, svokallaðar fasa tvö prófanir í þröngum sjúklingahópi. Gefi þær góða raun eru prófanirnar útfærðar til stærri sjúklingahóps.

Telur Haraldur að lyfjunum gæti verið vísað til þeirra sem eru með ADHD eftir kannski fjögur eða fimm ár. Ferlið sé töluvert styttra þegar verið sé að endurskilgreina gömul lyf því þau þurfa ekki að fara í gegnum sömu öryggisprófanir og ný.