Þrjú ungmenni hafa verið handtekin vegna líkamsárásar í Borgarholtsskóla og eru í umsjá félagsþjónustunnar vegna ungs aldurs.

Sex voru flutt á slysadeild eftir vopnuð átök í Borgarholtsskóla í gær. Greint hefur verið frá því að ungur maður hafi mætt í skólann vopnaður hafna­­­bolta­kylfu og hníf og hafi ráðist á nemendur í skólanum. Tilkynning barst til lögreglu rétt eftir hádegi og var sérsveitin kölluð út vegna átakanna.

Upp­lýsingar um á­verka þeirra sem fluttir voru á slysa­deild liggja ekki fyrir enn áður hefur komið fram að enginn hafi slasast alvarlega.

Málið er til rannsóknar hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar. Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn segir að rannsóknardeildin sé enn að afla sér upplýsinga um hversu margir eru gerendur og þolendur í málinu.

„Málið er enn í rannsókn þar sem verið er að afla upplýsinga um hlutverk hvers og eins,“ segir Margeir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.