Tilnefningarfresti vegna kjörs vígslubiskups á Hólum lauk í fyrradag. Kjörnefnd mun nú kanna hvort þau sem hlutu flestar tilnefningar gefi kost á sér.
Séra Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæjarprestakalli, hlaut flestar tilnefningar, 20 talsins. Næst kom séra Þorgrímur G. Daníelsson, prestur í Grenjaðarstaðarsókn, með 8 atkvæði og þá séra Dalla Þórðardóttir, prófastur í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, með 4 atkvæði.
„Ef einhver þeirra gefur ekki kost á sér skal sá sem næstur honum er að tilnefningu taka sæti hans. Á vefsvæði þjóðkirkjunnar skal svo fljótt sem verða má, eftir að niðurstaða tilnefninga er ljós, tilkynna um þá sem verða í kjöri auk þeirra tveggja sem næstir komu að tilnefningu,“ segir í starfsreglum um biskupskjör.
Núverandi vígslubiskup, séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, tilkynnti á Kirkjuþingi í mars að hún láta af embættinu 1. september í haust.
Leiðrétting: Áður var því haldið fram að séra Gunnar Gíslason hefði hlotið flestar tilnefningar en hið rétta er að það var sonur hans séra Gísli Gunnarsson sem hlaut flestar tilnefningar.