Þrjú smit til viðbótar greindust í gær á Reyðarfirði. Það kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn á Austurlandi. Allir sem greindust voru í sóttkví við greiningu.

Í dag fór stór hópur sem var í sóttkví í seinni skimun en samkvæmt tilkynningunni er óljóst hvort að sýnin komast til Reykjavíkur til greiningar vegna veðurs, en tafir hafa verið á flugferðum í dag vegna viðvarana víða um land.

Ekki er hægt að taka ákvarðanir um skólahald á Reyðarfirði fyrr en niðurstöður liggja fyrir úr sýnatökunni og því er líklegt að það liggi ekki fyrir fyrr en seinni part á morgun hvort að hægt er að hefja skólahald á ný. Tilkynning um skólahald verður send um leið og niðurstöður berast.

Alls hafa því tæplega 20 manns greinst með Covid-19 á Reyðarfirði síðustu daga frá því að fyrstu smit greindust í hópsýkingunni.