Um 3,2 prósent Íslendinga sem eru við atvinnu tilkynntu vinnuslys á síðasta ári, en það er örlítið hærra en meðaltalið í Evrópu. Hlutfallið er þó talsvert lægra en í Finnlandi þar sem um 9,6 prósent tilkynntu vinnuslys og er það hæsta hlutfallið í Evrópu.

Þetta kemur fram hjá Eurostat, tölfræðiveitu Evrópusambandsins.

Hlutfallið var örlítið hærra hjá körlum en konum, 3,6 prósent karla sögðust hafa tilkynnt vinnuslys en 2,8 prósent kvenna, sem er sjötta hæsta hlutfall í Evrópu.

Ef litið er til starfsgreina var hæsta hlutfallið í greinum sem tengjast landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og öðrum skyldum starfsgreinum, eða 7, 7 prósent. Þegar kemur að sérfræðingum og yfirmönnum lækkaði hlutfallið niður í 1,7 prósent.