„Það er von mín að þessi sam­staða tryggi að þol­endur of­beldis og fjöl­skyldur þeirra þurfi ekki að bíða eftir rétt­lætinu,“ segir Gísli Rafn Ólafs­son, þing­maður Pírata, í að­sendri grein sem birtist í Frétta­blaðinu í dag.

Gísli Rafn er flutnings­maður þings­á­lyktunar­til­lögu á Al­þingi í sjö liðum sem miðar að því að efla með­ferð kyn­ferðis­brota í réttar­kerfinu, vinna gegn kyn­ferðis­brotum og efla stuðning við þol­endur þeirra. Flutnings­menn til­lögunnar eru þrettán talsins úr fimm flokkum, bæði úr stjórn og stjórnar­and­stöðu.

Málið stendur Gísla nærri eins og hann lýsir í grein sinni því þar segir hann frá kyn­ferðis­of­beldi sem dóttir hans varð fyrir. Hann segir að þegar hann á­kvað að stíga inn á stjórn­mála­sviðið í vor hafi hann tekið á­kvörðun um að hans fyrsta verk yrði að berjast fyrir þol­endur kyn­ferðis­of­beldis.

„Á undan­förnum árum höfum við heyrt á­takan­legar sögur af of­beldinu sem fólk hefur orðið fyrir, bið þess eftir rétt­læti og von­brigðunum þegar réttar­kerfið hefur brugðist því. Við í fjöl­skyldunni minni þekkjum þessi mál af sárs­auka­fullri eigin raun. Við þekkjum það hvernig kerfin okkar bregðast og bar­áttu þol­enda fyrir breytingum,“ segir Gísli meðal annars og heldur á­fram:

„Mér var nauðgað“ eru þrjú orð sem ekkert for­eldri er búið undir að heyra 14 ára barn sitt segja í gegnum tárin. Klukku­tímum síðar, eftir að hafa til­kynnt brotið og gefið fyrstu skýrslu, óraði okkur for­eldrana aldrei fyrir því hvað biðin eftir rétt­lætinu yrði löng.“

Í grein Gísla kemur fram að rúmu ári eftir skýrslu­tökuna hafi málið borist fyrst til sak­sóknara. Og það var ekki fyrr en fimm árum frá upp­hafi málsins sem maðurinn var dæmdur fyrir brot sitt, að brjóta gegn barni.

„Á þeim tíma kom í ljós að dóttir okkar var ekki sú eina sem hann hafði brotið á, heldur voru brotin að minnsta kosti níu talsins, flest framin á þeim fimm árum sem dóttir okkar beið eftir rétt­lætinu,“ segir Gísli og bætir við að þetta sé ekki saga allra þol­enda. Allt bendi nefni­lega til þess að mikill meiri­hluti ger­enda sæti aldrei á­byrgð fyrir brot sín.

„Fyrir vikið bera þol­endur ekki fullt traust til lög­reglu og dóm­stóla til að leiða mál þeirra til lykta með sann­gjörnum hætti. Þessu vil ég breyta,“ segir Gísli sem sem kveðst stoltur að því að mæla fyrir slíkum breytingum.