Þrjú ný smit greindust á landinu í gær. Tvö þeirra greindust í skimun við landa­­mærin en eitt þeirra hjá Ís­­lenskri erfða­­greiningu sam­­kvæmt upp­­­lýsingum á co­vid.is.

Í há­­degis­fréttum RÚV kom fram að smitið sem greindist hjá Ís­­lenskri erfða­­greiningu hafi verið hjá rúm­­lega eins árs gömlu barni konu sem greindist með veiruna í fyrra­­dag. Konan sem greindist með veiruna í fyrra­­dag hafði komið til landsins fyrir um tíu dögum síðan en greindist ekki með veiruna í skimun við landa­­mærin.

Alls eru nú tíu virk smit á landinu og eru 440 í sótt­kví. 730 sýni voru tekin við landa­­mærin í gær, 92 hjá Ís­­lenskri erfða­­greiningu og 178 hjá sýkla- og veiru­­fræði­­deild Land­­spítala. Alls hafa nú átta inn­­lend smit greinst frá því að skimun hófst við landa­­mærin þann 15. júní, 28 er­­lend og fjögur ó­­þekkt. Inni í þessum tölum eru þó einnig gömlu smitin sem greinst hafa við landa­­mæra­skimun.

Við landa­­mæra­skimunina hafa 29 sýni greinst já­­kvæð en að­eins fjögur þeirra hafa reynst smitandi. Beðið er eftir niður­­­stöðum úr mót­efna­­mælingu frá tveimur þessara 29 sýna til við­bótar en hin sýnin 23 reyndust gömul.