Þrjú mál sem varða kynferðisbrot hafa verið tilkynnt af brotaþolum til náms- og starfsráðgjafa á þessari haustönn í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Þetta staðfestir Steinn Jóhannsson, rektor skólans. Öll málin varða nemendur skólans og gerðust utan hans.

Steinn segir unnið samkvæmt aðgerðaáætlun skólans gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í öllum þremur málunum.

Framhaldsskólanemar hafa lýst yfir miklum vonbrigðum með aðgerðaleysi skólastjórnenda vegna tilkynninga þolenda um meint kynferðisofbeldi.

Nemendur hafa nú risið upp og hafið byltingu vegna málsins en þeir krefjast þess að skólastjórnendur stígi fastar til jarðar í málunum og trúi þolendum.

Þeir kæra sig ekki um að stunda nám innan um meinta gerendur og vilja sjá breytingar.

Steinn segir skólann líta kynferðislegt áreiti og kynferðislegt ofbeldi mjög alvarlegum augum. „Stjórnendur, starfsfólk MH og allt skólasamfélagið stendur með þolendum ofbeldis og ef upp koma mál sem tengjast ofbeldi af hvaða tagi sem er tökum við á þeim. Við vitum hins vegar að þar höfum við oft getað gert betur,“ segir jafnframt í svari Steins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Málin séu viðkvæm, skólinn sé að læra og vilji gera betur. „Þá hörmum við jafnframt að fyrrverandi nemendur hafi þurft að upplifa mikla vanlíðan vegna þess að skólinn tók ekki nógu vel á málum og biðjumst innilegrar afsökunar á því.“