Rúmar þrjár vikur eru nú síðan að Bandaríkjamenn gengu til kosninga en eins og staðan er í dag hafa 25 ríki, sem og Washington D.C., staðfest úrslit kosninganna í ríkjunum. Þrjú lykilríki staðfestu úrslit sín í dag og í gær, Pennsylvanía, Nevada og Norður-Karólína. Joe Biden fékk þar Pennsylvaníu og Nevada en Donald Trump fékk Norður-Karólínu.
Önnur lykilríki sem hafa þegar staðfest úrslit kosninganna eru Flórída, Georgía, Minnesota og Michigan en Biden var staðfestur sigurvegari kosninganna í öllum þeim ríkjum, fyrir utan Flórída. Michigan staðfesti úrslitin síðastliðinn mánudag og reyndist það vera ákveðið högg fyrir Trump, þar sem hann hefur haft mikið fyrir því að snúa niðurstöðunum í ríkinu og lýsti því meira að segja yfir fyrr í mánuðinum að hann hafði sigrað þar.
Fáir möguleikar fyrir Trump
Líkt og áður hefur verið greint frá lýstu fjölmiðlar vestanhafs Biden sigurvegara kosninganna laugardaginn 7. nóvember en vegna fjölda póstatkvæða í ljósi kórónaveirufaraldursins var nokkur töf á niðurstöðum í nokkrum helstu ríkjunum. Það var að lokum Pennsylvanía, og 20 kjörmenn ríkisins, sem færðu Biden sigurinn.
Þrátt fyrir að það virðist ljóst að Joe Biden sé tilvonandi forseti Bandaríkjanna hefur Trump neitað að játa sig sigraðan og ítrekað haldið því fram að um kosningasvindl hafi verið að ræða. Teymi Trumps hefur höfðað þó nokkur mál fyrir dómstólum vegna meints kosningasvindls en nánast öllum þeirra hefur verið vísað frá eða kærurnar dregnar til baka. Fyrr í vikunni gaf Trump stoðþjónustu Bandaríkjanna leyfi til þess að hefja ferlið í kringum valdaskiptin til Bidens.
Kjörmenn greiða atkvæði 14. desember
Tíminn er nú naumur fyrir Trump en öll ríki Bandaríkjanna verða að vera búin að staðfesta úrslit kosninganna fyrir 14. desember næstkomandi, þegar kjörmenn ríkjanna koma saman og greiða atkvæði sín til forseta. Til að vera kjörinn forseti þarf frambjóðandi að fá 270 kjörmenn eða fleiri en ef miðað er við stöðuna núna má gera ráð fyrir að Biden fái 306 kjörmenn.
Að því er kemur fram á heimasíðunni BallotPedia þurfa tvö ríki að staðfesta úrslit kosninganna í dag og fimm til viðbótar næstkomandi mánudag, þar á meðal Arizona sem Trump hefur einnig haft augastað á. Síðasta ríkið sem staðfestir úrslit kosninganna verður síðan Kalifornía þann 11. desember. Atkvæði kjörmanna verða síðan talin í byrjun janúar og tekur nýr forseti við embætti á hádegi 20. janúar 2021.