Þrír greindust með kórónaveiruna innanlands í gær en af þeim sem greindust voru tveir utan sóttkvíar. Allir sem greindust voru með einkenni.

Í einangrun með virkt smit eru nú 84 en þeim fækkar um 16 á milli daga. 543 eru nú í sóttkví en þeim fjölgar um tæplega 280 milli daga. Í heildina voru rúmlega 1300 sýni tekin innanlands í gær.

Á landamærunum reyndist eitt sýni jákvætt fyrir veirunni en um var að ræða einstakling með mótefni. Í skimunarsóttkví eru nú 997 einstaklingar en þeim fækkar um rúmlega 80 milli daga. Tæplega 500 sýni voru tekin á landamærunum í gær.

Innlögnum á sjúkrahús vegna COVID-19 fjölgar einnig á milli daga en þrír eru nú inniliggjandi á spítala. Tvær innlagnir varða einstaklinga sem greindust með veiruna á sunnudag og er annar þeirra í öndunarvél.

Fréttin hefur verið uppfærð.