Lovísa Arnardóttir
lovisaa@frettabladid.is
Sunnudagur 20. nóvember 2022
12.00 GMT

Sima Sami Bahous tók við em­bætti fram­kvæmda­stýru UN Wo­men í fyrra og segir að fyrsta árið hafi verið veru­lega gefandi en á sama tíma hafi það verið erfitt. Sér­stak­lega með til­liti til heims­far­aldurs Co­vid, lofts­lags­vá­rinnar og á­taka eins og eru í Úkraínu, Afgan­istan og annars staðar, sem hún segir að hafi að mörgu leyti markað stefnu stofnunarinnar síðasta árið.

„En ég tók við þessu starfi til að gera betur og það gefur mér mikla orku og hvatningu að vita að ég hafi tæki­færi til að leiða svo mikil­væga stofnun og breytingar innan hennar.“

Spurð hvort margt hafi komið henni á ó­vart þetta fyrsta ár hennar í em­bætti, segir hún að það hafi ekkert endi­lega komið á ó­vart en að hún hafi ekki búist við því sem gerðist í Úkraínu.

Hún segist þó hafa lengi starfað í þróunar­að­stoð og sé því vel með­vituð um þau mál­efni sem liggja fyrir og það sem getur komið upp á.

Enn langt í land

UN Wo­men er eina stofnun Sam­einuðu þjóðanna sem vinnur al­farið í þágu jafn­réttis og þar með talið kynja­jafn­rétti. Hún segir að enn sé langt í land að ná því.

„Við vorum langt frá því og Co­vid gerði það enn erfiðara. Það er mis­jafnt eftir löndum hversu langt þau eru komin og Ís­land er eitt þeirra sem leiðir veg­ferðina,“ segir Sima og að það megi rekja til á­taks kvenna­hreyfinga hér á landi og ýmissa banda­manna þeirra yfir langan tíma.

„En al­þjóð­lega er staðan ekki góð.“

Hún segir að ef­laust viti margir að leið­togar heimsins hafi lofað að ná kynja­jafn­rétti árið 2030 í tengslum við Sjálf­bærni­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna.

„En sam­kvæmt okkar út­reikningum og miðað við þróun mála eins og hún er í dag, mun það ekki taka átta ár heldur 300 ár. Það er ó­á­sættan­legt og allir, sama hvar þeir eiga heima, ættu að skammast sín fyrir það. Þetta er ekki bara vanda­mál kvenna og stúlkna. Þetta er vanda­mál okkar allra,“ segir Sima og að það sé skylda okkar allra að bregðast við þessu.

Hún segir að án þess þá munum við aldrei geta tekist á við þær á­skoranir sem eru fram undan og að ekki sé hægt að ná neinum fram­förum án þess að helmingi mann­kyns, konum, sé lyft hraðar upp.

Sima á Reykjavík Global Forum fyrr í mánuðinum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þrenns konar á­skoranir

Spurð hverjar séu stærstu á­skoranirnar fram undan þá segir hún þær þrenns konar. Þær varði átök um allan heim, lofts­lags­vána og svo Co­vid-19.

„Það eru aldrei konur sem hefja á­tökin en það eru alltaf þær sem þurfa að taka á sig mestan kostnað vegna þeirra. Auk þess eru konur oft úti­lokaðar frá því ferli sem fer af stað þegar samið er um frið, á ná­kvæm­lega sama tíma og í sögu­legu sam­hengi þær hafa mest fram að færa,“ segir hún og að önnur á­skorunin sé lofts­lags­váin. Það sé allt frá náttúru­ham­förum tengdum lofts­lags­breytingum og þörfinni á því að að­lagast þeim breytingum sem eru fram undan, hraðar.

„Sú þriðja er við­varandi en hún er við­brögð við Co­vid-heims­far­aldri. Við höfum greint við­brögð ó­líkra landa eftir efna­hag þeirra og hvernig þau hafa farið að því að byggja sig aftur upp og við sjáum að það eru leiðir sem virka betur fyrir konur og leiðir sem virka verr,“ segir Sima og að fyrir öll lönd sé nauð­syn­legt að skoða við­bragðs­á­ætlanir með til­liti til þess hvaða á­hrif það hefur á bæði konur og karl­menn.


Við höfum upp­lifað bak­slag og mót­vind áður og við munum gera það aftur, en sagan hefur sýnt okkur að það getur ekkert stoppað okkur.


Erum við að ganga í gegnum bak­slag?

„Já, það er mörgum sem finnst þeim ógnað af fram­förum þegar kemur að kynja­jafn­rétti, en þau hafa yfir­leitt rangt fyrir sér því aukið kynja­jafn­rétti gagnast okkur öllum. En sumu fólki er ógnað og það er að reyna að ýta okkur aftur á bak,“ segir Sima og að það sé eðli­legt að fólki líði eins og það séu ekki fram­farir heldur aftur­för. Sér­stak­lega þegar litið er til Afgan­istan þar sem yfir­völd hafa aftur tak­markað réttindi stúlkna og þegar litið er til landa á Norður­slóðum þar sem mörg lýð­ræðis­leg gildi og réttindi kvenna eru í hættu og sæta árás.

Kynja­jafn­rétti er rétt

Hún segir að á sama tíma megi þó ekki gleyma því að að mörgu leyti stöndum við framar nú en áður.

„Heimurinn er ó­neitan­lega framar í dag en hann var fyrir einni kyn­slóð eða tveimur. Raun­veru­leikinn er sá að okkar mál­staður mun fara á­fram. Við höfum upp­lifað bak­slag og mót­vind áður og við munum gera það aftur, en sagan hefur sýnt okkur að það getur ekkert stoppað okkur. Því við höfum rétt fyrir okkur. Konur og stúlkur, með karl­menn og drengi sér við hlið, hafa skuld­bundið sig til að vinna að jafn­rétti og munu aldrei gefast upp,“ segir Sima á­kveðin.

Spurð hvað sé hægt að gera til að mæta mót­vindi segir hún að ein lausn sé hrein­lega að halda á­fram með vinnuna, að gefast ekki upp.

„Við vitum að það sem virkar best er að setja fram­gang kvenna í for­gang, að tryggja þátt­töku þeirra, bæði al­mennt og í gegnum sér­tæk úr­ræði eins og kynja­kvóta, stefnu­mótun sem tekur þarfir kvenna og stúlkna sér­stak­lega til greina og með því að skil­greina fjár­magn sem fer í verk­efni sem styðja við konur og að koma þeim í leið­toga­stöður. Við höldum á­fram með þetta.“

Sima stýrði umræðum á viðburði í Reykjavík fyrr í mánuðinum ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

For­dæmi leið­toga mikil­vægt

Hún segir að annað sem sé mikil­vægt sé að leið­togar taki réttar á­kvarðanir fyrir konur og séu þannig réttum megin sögunnar.

„Það for­dæmi sem leið­togar setja um allan heim er á­kaf­lega mikil­vægt, og orð þeirra líka. Við þurfum fleiri leið­toga, bæði karla og konur, sem styðja við jafn­rétti og tryggja þannig að ekki fari á milli mála að þau séu full­trúar þjóðar sinnar og þess fjöl­breyti­leika sem má finna innan hennar,“ segir Bahous og að þess vegna verði að fjár­festa í for­ystu kvenna.

Hún var hér á landi fyrr í mánuðinum til að taka þátt í leið­toga­fundi kvenna hér á Ís­landi og stýrði, á­samt for­sætis­ráð­herra, Katrínu Jakobs­dóttur, um­ræðum. Sima segir fundinn hafa verið góða á­minningu um öfluga fjöl­breytni, skuld­bindingu, sér­þekkingu og af­rek kven­leið­toga.

„Eftir því sem fleiri og fleiri konur taka meiri á­byrgð sem leið­togar í bæði einka­geira og hinum opin­bera, er ég viss um að ganga okkar að jafn­rétti mun ganga hraðar.“

Ó­um­flýjan­legur veru­leiki

Hvað er mikil­vægast fyrir stúlkur í dag?

„Ég held að það sem er mikil­vægast fyrir stúlkur í dag sé að hafa til­finningu fyrir því að þær geti sjálfar haft á­hrif á líf sitt, um leið og þeim líður eins og þær séu partur af stærri heild og byltingu. Stúlkur verða að vita að þær eiga til­kall til sömu mann­réttinda og allir aðrir; til menntunar, til sam­fé­lags­legrar þátt­töku og til að ráða sjálfar yfir eigin líkama. Það verður að styðja stelpur og fræða þær svo þær viti að þessi réttur er þeirra, að þær stjórna eigin lífi og að það er alltaf ó­á­sættan­legt að tak­marka réttindi þeirra að ein­hverju leyti. Þó veg­ferð hverrar konu og stúlku sé ein­stök þá stendur engin þeirra ein. Kvenna­hreyfingar eru fjöl­breyttar, stórar, sí­breyti­legar og alltaf í þróun. Sér­hver stúlka getur verið partur af hreyfingunni sem þátt­takandi, við­takandi eða leið­togi,“ segir Sima og heldur á­fram:

„Ég vil að allar stúlkur viti að kynja­jafn­rétti er, og ég er sann­færð um það, ó­um­flýjan­legt. Og þær fá tæki­færi til að taka þátt í að koma því á.“

Íslendingar duglegir að styrkja

UN Wo­men starfar bæði á al­þjóða­vísu en á einnig lands­nefnd hér á Ís­landi. Sima segir að UN Wo­men á Ís­landi sé dýr­mætur sam­starfs­aðili en lands­nefndin á Ís­landi sendi í fyrra út til UN Wo­men hæsta fjár­fram­lag allra tólf lands­nefnda sjötta árið í röð, óháð höfða­tölu, og er því einn helsti styrktar­aðili verk­efna UN Wo­men á heims­vísu. Mánaðar­lega styrkja nærri tíu þúsund Ís­lendingar starf UN Wo­men.

„Sam­starf okkar á Ís­landi er tví­þætt. Fyrst verð ég að nefna tengsl okkar við ís­lensku ríkis­stjórnina sem alltaf hafa verið sterk. Ís­lenska ríkis­stjórnin hefur ekki að­eins styrkt okkur fjár­hags­lega heldur einnig í stefnu­mótun og hefur þannig marg­faldað á­hrifin og hefur sýnt gott for­dæmi með því að tala um og berjast fyrir kynja­jafn­rétti á al­þjóð­legum grund­velli,“ segir Sima og að á sama tíma hafi lands­nefnd UN Wo­men á Ís­landi verið einn helsti tals­maður UN Wo­men á heims­vísu.

„Ekki bara með því að vekja vitund og safna stuðningi við vinnu UN Wo­men, heldur einnig með því að tala fyrir þeim gildum sem við tölum fyrir al­þjóð­lega, á Ís­landi.“

Hún segir að á meðan hún dvaldi hér á Ís­landi hafi hún fengið tæki­færi til að hitta for­sætis­ráð­herra, aðra ráð­herra og ýmsa em­bættis­menn, sem hún vilji þakka stuðninginn.

„En ég vil líka senda mínar hlýjustu þakkir til fólksins á Ís­landi, en skuld­binding þess til kynja­jafn­réttis vekur at­hygli um allan heim og við kunnum að meta það.“

Athugasemdir