Þrír aðilar voru handteknir með skotvopn á hóteli í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi rétt fyrir klukkan átta. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að sérsveit hafi aðstoðað lögreglu á vettvangi en aðilarnir voru með skotvopn, skotfæri og fíkniefni. Öll hafa þau verið vistuð í fangaklefa vegna rannsóknar lögreglu á málinu.
Þá kemur fram í dagbók lögreglunnar að ungmenni hafi valdið skemmdum á grunnskóla í austurhluta borgarinnar með flugeldum og að lögregla hafi við eftirlit í miðborginni kært nokkra skemmtistaði fyrir að vera ekki með dyraverði eða dyraverði án tilskilinna réttinda.
Þá var um klukkan níu í gærkvöldi tilkynnt um „ljós á glæfralegum stað í Úlfarsfelli“ en við nánari skoðun kom í ljós að um væri að ræða fólk á skíðum.