Ein kona liggur nú al­var­lega slösuð á spítala og fjórir eru látnir, þar af þrjú börn, eftir að talið er að kveikt hafi verið í bíl í áströlsku borginni Bris­bane. Að því er kemur fram í frétt BBC um málið átti at­vikið sér stað klukkan 8:30 að staðar­tíma og er rann­sókn málsins enn á grunn­stigi.

Full­trúi lög­reglu stað­festi að hópurinn sem var í bílnum hafi verið frá svæðinu en að sögn vitna öskraði konan sem er slösuð „hann hellti bensíni á mig“ meðan hún var að reyna að koma sér út úr bílnum. Fjölmargir ástralskir miðlar hafa greint frá því að fjölskyldufaðirinn, sá sem lést ásamt börnunum, sé talinn vera sá sem kveikti í bílnum. Lög­regla vill þó ekki gefa upp nöfn þeirra látnu eða hver mögu­leg á­stæða fyrir elds­voðanum hafi verið.

For­sætis­ráð­herra Ástralíu, Scott Morri­son, tjáði sig um at­vikið á Twitter þar sem hann skilaði sam­úðar­kveðju til þeirra sem væru að ganga í gegnum „þennan hörmu­lega tíma.“ Þá skilaði hann einnig kveðju til við­bragðs­aðila sem komu að vett­vangi en lög­regla sagði vett­vanginn vera „skelfi­legan.“