Um sex prósent af þeim 550 þúsund fermetrum af húsnæði sem er í eigu ríkisins eru ekki í notkun, sem merkir að um 30 þúsund fermetrar af ríkiseignum eru tómir.

Þetta kemur fram í svari frá Framkvæmdasýslunni Ríkiseignum (FSRE) við fyrirspurn Fréttablaðsins. Húsnæðið sem ekki er í notkun er ýmist laust, eða í þróun og umbreytingu, að því er segir jafnframt í svarinu, en margt af því er komið til ára sinna og þarfnast mikils viðhalds.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins eru rakaskemmdir algengar í umræddu húsnæði sem ekki er í notkun og eru allmörg dæmi þess að starfsemi í slíkum byggingum hafi verið flutt yfir í skammtímahúsnæði. Þar á meðal eru nokkur ráðuneyti og kunnar ríkisstofnanir, svo sem FSRE, sem annast húsakost ríkisins, en hluti af gömlu húsnæði þeirrar stofnunar var ónothæfur vegna myglu, svo henni var komið fyrir í nýju húsnæði í Borgartúni.

Ein meginskýringanna á því hvað mikið er til af vannýttu eða tómu ríkishúsnæði, hvort heldur sem það er tímabundið eða ekki, er gjörbreytt nýting á skrifstofuhúsnæði frá því sem áður var. Rýmin eru nú miklu betur nýtt og alrými hafa leyst stóra og afstúkaða kontóra af hólmi.

Algengt var á síðustu öld og fram á þá nýju að hver ríkisstarfsmaður hefði yfir að ráða allt að 25 fermetrum, en fermetranýting á hvern starfsmann er nú komin niður í fimmtán fermetra að jafnaði og oft minna, svo sem hjá FSRE þar sem ellefu fermetrar eru á hvern starfsmann, en þar er enga lokaða skrifstofu að finna.

Í þessu ljósi er nú verið að breyta stórum plássum frá því að vera stúkuð niður í einstakar skrifstofur í alrými þar sem starfsmenn þjappa sér saman við sameiginleg skrifborð.