Konur í orku- og veitugeiranum upplifa þverrandi tækifæri til þróunar í starfi og minni hvatningu með hækkandi aldri en karlar samkvæmt nýrri könnun.

„Samkvæmt niðurstöðum úr könnun sem Prósent framkvæmdi fyrir félagið Konur í orkumálum (KÍO) í samstarfi við Orkusöluna kemur í ljós að starfsánægja er mjög mikil í orku- og veitugeiranum samanborið við markaðinn í heild sinni, en 90 prósent starfsfólks eru ánægð með starfið sitt,“ segir Hildur Harðardóttir, formaður stjórnar KÍO, í tilkynningu sem væntanleg er í dag.

„Niðurstöðurnar í ár staðfesta enn frekar hversu gott er að starfa í orku- og veitugeiranum,“ er einnig haft eftir Hildi.

Að því er segir í tilkynningunni sýnir könnunin að 30 prósent starfsfólks hafi orðið fyrir misrétti í starfi. „Svo sem að hafa verið höfð út undan, faglegt álit þeirra hundsað eða að annar aðili hafi fengið hrós eða viðurkenningu fyrir þeirra vinnu. Konur upplifa þetta frekar en karlar, en þó er þróunin í rétta átt þar sem þeim fækkar á milli ára.“

Einnig segjast 10 prósent starfsfólks hafa orðið fyrir einelti og kynbundinni og kynferðislegri áreitni á sínum vinnustað síðastliðna tólf mánuði.

„Þessari tölu viljum við auðvitað koma niður í núll. Einelti og kynbundin eða kynferðisleg áreitni á vinnustað á aldrei að líðast,“ segir Hildur.