Júlía Guðný Hreinsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum árið 1964. Hún fæddist heyrnarlaus rétt eins og tvíburabróðir hennar, Arnþór og hefur verið ötul baráttukona íslenska táknmálsins og sagði sögu sína í helgarblaði Fréttablaðsins um helgina.

„Við tvíburabróðir minn fæddumst bæði heyrnarlaus eftir að móðir okkar fékk Rauðu hundana á meðgöngunni,“ segir Júlía. Hún segir mikið hafa verið um fæðingar heyrnarlausra barna í kjölfar þess að mæður sýktust af veirunni á meðgöngu. „Þessi árgangur heyrnarlausra var mjög stór í öllum heiminum, aðallega vegna Rauðu hundanna, og hér á landi voru börnin 35 talsins.“

Júlía og tvíburabróðir hennar, Arnþór, lærðu að tjá sig hvort við annað þótt engin táknmálskennsla væri í boði. „Við systkinin bjuggum til okkar eigið táknmál heima. Fjölskyldan skildi það ekki, heldur aðeins einfaldar bendingar eins og að borða og drekka og slíkt.“

Neyddust til að flytja

Fjölskyldan neyddist til að flytja frá Vestmannaeyjum þar sem foreldrar Júlíu höfðu nýverið lokið við að byggja sér heimili, svo tvíburarnir kæmust í Heyrnleysingjaskólann sem starfræktur var í Reykjavík frá 1909 til 2002.

„Við fórum fjögurra ára gömul í Heyrnleysingjaskólann. Flest heyrnarlaus og döff börn á Íslandi fóru í heimavist í þeim skóla. Þessi börn voru kannski alveg mállaus heima fyrir enda gátu þau ekki talað með rödd sinni og höfðu ekki lært táknmál. Við systkinin vorum heppin að því leyti að við vorum tvö og gátum talað hvort við annað.“

Bjuggu í foreldrahúsum

Fyrir hvatningu afa sína bjuggu þau systkinin alltaf í foreldrahúsum og fluttu ekki á heimavistina eins og önnur börn.

„Mamma var á báðum áttum enda nýbúin að byggja hús í Vestmannaeyjum en afi hvatti okkur til að flytja. Faðir hans hafði drukknað og langamma var þá ein eftir með sex börn og þurfti að setja afa minn í fóstur sex ára gamlan þar sem hann upplifði þrældóm. Hann vildi ekki að við værum í slíkri hættu og hvatti því foreldra mína til að selja húsið og flytja í bæinn.

Mamma hágrét og vildi vera áfram í Vestmannaeyjum og ég man eftir að hafa sagt við hana huggandi: „Þegar við verðum stærri geturðu farið aftur til Vestmannaeyja. Svo þegar kom að því vildi hún þó bara vera áfram,“ segir Júlía meðal annars í viðtalinu sem birtist í helgarblaði Fréttablaðsins.