Þrjátíu skjólstæðingar hjá sjúkraþjálfarastöðunni Stíg á Akureyri eru komnir í sóttkví eftir að sjúkraþjálfari á stöðinni greindist með COVID-19.

RÚV greinir frá þessu. Sjúkraþjálfarinn greindist á laugardag og segir Þuríður Sólveig Árnadóttir, eigandi Stígs, í samtali við RÚV að stofunni hafi verið lokað þegar tilfellið kom upp.

Allir aðrir sjúkraþjálfar voru í leyfi og ekki í hættu á að smitast af samstarfsfélaganum. Einn aðstoðarmaður var sendur í sóttkví.

Sjúkraþjálfarastofan verður lokuð næstu vikuna hið minnsta að sögn Sólveigar eða þar til starfsmenn mæta aftur til vinnu eftir leyfi. Þá verði aðstaðan sótthreinsuð.

Sólveig sagði í samtali við RÚV að ekkert sé vitað um uppruna smitsins og unnið sé að rakningu.

Þrjú innanlandssmit greindust í gær og eru nú 83 í einangrun með virkt smit hér á landi. Þá eru 734 einstaklingar nú í sóttkví.