Í ágúst hefur Lyfja­stofnun fengið þrjár til­kynningar um and­lát í kjöl­far bólu­setningar gegn Co­vid-19 en þetta kemur fram í til­kynningu sem birt var á vef stofnunarinnar í gær. Um er að ræða viku­lega sundur­liðun á al­var­legum til­kynningum en tilkynningar um andlátin bættust við í nýliðinni viku.

Til­kynningarnar varða annars vegar bólu­efni Moderna og hins vegar bólu­efni AstraZene­ca. Um er að ræða fyrstu til­kynninguna um and­lát í kjöl­far bólu­setningar með Moderna en sá ein­stak­lingur var 75 ára eða eldri með stað­festan undir­liggjandi sjúk­dóm.

Hvað bólu­efni AstraZene­ca varðar er um að ræða einn ein­stak­ling á aldurs­bilinu 65 til 74 ára og einn ein­stak­ling á aldrinum 60 til 64 ára. Hvorugir þeirra voru með stað­festa undir­liggjandi sjúk­dóma sam­kvæmt upp­lýsingum Lyfja­stofnunar.

Í heildina hafa því 30 and­lát í kjöl­far bólu­setningar verði til­kynnt frá því í janúar 2021. Að svo stöddu bendir ekkert til or­saka­sam­hengis milli til­kynntra and­láta og bólu­setninga.

Al­var­legar til­kynningar fyrir bólu­efnin fjögur sem hafa hlotið skil­yrt markaðs­leyfi hér á landi eru nú 187 talsins en þeim fjölgar um 12 milli vikna, þar af þrjár fyrir Pfizer, fjórar fyrir bólu­efni Moderna, þrjár fyrir bólu­efni AstraZene­ca, og tvær fyrir bólu­efni Jans­sen.

Átta til­kynningar varða sjúkra­hús­vist, þar af þrjár fyrir Pfizer (ein þar sem um lífshættulegt ástand var að ræða), tvær fyrir Moderna, ein fyrir AstraZene­ca, og tvær fyrir Jans­sen (ein þar sem um lífshættulegt ástand var að ræða). Þá bætist ein al­var­leg til­kynning fyrir bólu­efni Moderna þar sem beðið er eftir við­bótar­upp­lýsingum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Hér fyrir neðan má finna fjölda tilkynninga um aukaverkun í kjölfar bólusetningar.