Meðferðarheimilið Laugaland í Eyjafirði hefur verið opnað á ný rúmu ári eftir að því var lokað, starfsemin mun þó fara fram undir öðru nafni.

Mbl greinir frá.

Greint var frá lokun meðferðarheimilisins fyrir rúmu ári en lokuninni var mótmælt af aðstandendum og fyrrverandi skjólstæðingum.

Starfsmenn heimilisins skoruðu á félags- og barnamálaráðherra og forstjóra Barnaverndarstofu að reyna finna leiðir til að halda starfseminni gangandi en þeir töldu ákvörðun um lokun vera óábyrga.

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, staðfestir opnunina í samtali við Mbl.is og segir Barna- og fjölskyldustofu nú reka heimilið og að ríkisstarfsmenn verði ráðnir inn.

Samkvæmt Ólöfu verður þjónustan á heimilinu í boði fyrir stúlkur og kynsegin en sérstök áhersla verði lögð á áfallameðferð.

Heimilið muni því gegna mjög svipuðu hlutverki og fyrir lokun þess.

Starfsemi heimilisins er þegar hafin og njóta nú þrjár stúlkur þjónustu þar en heimilið verður formlega opnað 27. júní þegar nýtt nafn heimilisins verður kynnt.

Í samtali við RÚV segir Ólöf nú þegar búið að ráða um tíu starfsmenn á heimilið en að það þurfi fleiri.

Gert sé ráð fyrir að um fjórar til fimm stúlkur dvelji á heimilinu að hverju sinni.