Vinkonurnar Birgitta Sigríður, Birta Dís og Kolfinna Katla komu auga á nokkuð óvenjulegt þegar þær voru að leik við bakka Fnjóskár, sem rennur fram hjá tjaldstæðinu í Vaglaskógi í Fnjóskárdal á Norðurlandi. Fyrirbærið reyndist fótur af hrossi.

„Við vorum í göngutúr og ákváðum að vaða aðeins í ánni. Þá sáum við eitthvað ofan í ánni og héldum að þetta væri heill hestur á kafi.

Svo sóttum við fullorðna fólkið og létum þau vita. Þau fóru þá út í og náðu í þetta sem var svo bara einn fótur. Okkur brá aðeins,“ segir Kolfinna Katla, í samtali við Fréttablaðið.

Ekki liggur fyrir hver tilurð hrossafótarsins er og hvers vegna hann fannst á grynningum Fnjóskár. Mikil leysingaflóð voru á Norðurlandi í byrjun mánaðarins, meðal annars í Fnjóská. Samkvæmt frumniðurstöðum Veðurstofu Íslands voru flóðin hin stærstu í 50 ár.

Því má leiða líkum að því að hrossafóturinn hafi verið nýttur sem beita af einhverju tagi til að fanga mink eða ref. Af hófi fótarins mátti ráða að líklegast hafi ekki verið um reiðhest að ræða.

Hófur hrossafótarins dularfulla bar þess ekki merki að hann hafi áður tilheyrt reiðhesti.