Talsverður erill var hjá lögreglu í nótt samkvæmt dagbók lögreglu en þrjár líkamsárásir áttu sér stað í miðbænum í aðskildum atvikum og var einn handtekinn vegna einnar þeirra og vistaður í fangklefa.

tilkynnt var um innbrot í Hlíðunum og var það einstaklingur sem reyndi að brjótast inn í heimahús. Var sá hinn sami handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar. Annað innbrot í verslun í miðbænum var þá einnig tilkynnt.

Nokkuð var um umferðaróhöpp í Kópavogi og Breiðholti. Í Breiðholti var tilkynnt um óhapp þar sem annarri bifreiðinni var verið ekið á brott án þess að ökumaður hafi gert viðeigandi ráðstafanir vegna óhappsins. Bifreið þess sem lét sig hverfa frá óhappinu var svo stöðvuð skömmu síðar og var ökumaður hennar vistaður í fangaklefa vegna gruns um ölvun við akstur.

Þá voru slagsmál tilkynnt í Kópavogi og voru fjórir einstaklingar handteknir vegna gruns um aðild í málinu og þeir allir vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar. Þolandi leitaði síðar meir á bráðamóttöku en ekki er vitað um alvarleika meiðsla hans.

Í Kópavogi var tilkynnt um unga drengi sem komist höfðu upp á þak á leikskóla. Lögregla ræddi við drengina um hættuna sem getur fylgt slíku príli. Þá var foreldrum drengjanna tilkynnt um afskipti lögreglu.