Þrjár konur hafa nú sakað ríkis­stjóra New York, Andrew Cu­omo, um kyn­ferðis­lega á­reitni í þeirra garð en tvær þeirra störfuðu fyrir hann þegar brotin voru framin.

Fyrsta konan, Linds­ey Boy­lan, steig fyrst fram í fyrra og önnur kona, Char­lotte Bennett, steig fram um helgina í við­tali við New York Times en hún birti einnig opin­bera yfir­lýsingu eftir að Cu­omo tjáði sig um málið á sunnu­dag. New York Times greindi síðan frá á­sökunum þriðju konunnar, Anna Ruch, í gær.

Boy­lan sakaði Cu­omo um að hafa kysst sig á varirnar og beðið sig um að spila fatapóker um borð einka­þotu hans. Bennett steig fram í kjöl­farið og sagði Cu­omo hafa spurt út í kyn­líf hennar, hvort hún að­hyllist ein­kvæni, og hvort hún hafi stundað kyn­líf með eldri karl­mönnum. Hún sagðist túlka um­mæli Cu­omo sem svo að hann væri að reyna við hana.

Cu­omo birti yfir­lýsingu um á­sakanirnar á sunnu­dag þar sem hann neitaði að hafa reynt við konurnar og þver­tók fyrir það að hafa snert neinn á ó­við­eig­andi hátt. Hann sagðist þó skilja að hegðun hans gæti hafa verið túlkuð sem ó­við­eig­andi í ljósi stöðu hans og baðst af­sökunar til „þeirra sem leið þannig.“

Spurði hvort hann mætti kyssa hana

Í gær steig síðan Ruch fram en hún lýsti því að hafa hitt Cu­omo í brúð­kaups­veislu haustið 2019. Að hennar sögn snerti Cu­omo hana á bert bakið og þegar hún ýtti hendi hans frá sagði hann að hún væri „á­rásar­gjörn.“ í kjöl­farið hafi hann sett hendur sínar á kinnar hennar og spurt hvort hann mætti kyssa hana.

„Ég var svo ringluð og hneyksluð og vand­ræða­leg,“ sagði Ruch í sam­tali við New York Times um málið og er frá­sögn hennar stað­fest af myndum frá um­ræddu kvöldi. Tals­maður Cu­omo vildi ekki tjá sig beint um mál Ruch þegar þess var leitað heldur vísaði að­eins til yfir­lýsingarinnar frá því á sunnu­dag.

Cu­omo hefur sætt mikilli gagn­rýni síðast­liðnar vikur eftir að hann var sakaður um að leyna fjölda látinna af völdum CO­VID-19 á hjúkrunar­heimilum, auk þess sem hann hefur verið sakaður um ein­elti.

Alríkislögregla Bandaríkjanna rannsakar nú mál hjúkrunarheimilanna en margir hafa kallað eftir því að Cuomo segi af sér vegna málsins.