Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Laugardagur 16. janúar 2021
11.00 GMT

„Jón Bald­vin gerði alltaf það sem honum sýndist og fólk lét allt eftir honum,“ segir Ragna Björg, 72 ára gömul hús­freyja í Hafna­firði, sem starfaði sem mat­ráðs­kona í Ráð­herra­bú­staðnum árið 1996.

Ragna hefur lifað tímana tvenna og kynnst mönnum sem hafa brotið á henni. Hún talar hispurs­laust og dregur ekki dul á skoðun sinni um valda­mikla menn sem henni finnst komast upp með hvað sem er.

Hún segist á sínum tíma hafa séð marga menn í virðinga­stöðum láta eins og vit­leysinga í glasi. Ragna lýsir einu skipti þegar hún vann langt fram á nótt í eld­húsinu í Ráð­herra­bú­staðnum þar sem hún segir Jón Bald­vin hafa beitt hana kyn­ferðis­legu of­beldi.

Ragna Björg var að vinna í eldhúsinu í Ráðherrabústaðnum.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Me Too er ekkert búið

„Við vorum bara þrjú eftir af starfs­liðinu, ég, yfir­maður minn og sex­tán ára stúlka sem var að að­stoða mig, enda vorum við ekki vön að vinna svona langt fram­eftir. Þetta var mjög seint og ég var að klára að ganga frá í eld­húsinu þegar ég heyrði rosa­leg læti frammi. Ég man að við vorum með á­tján­þúsund króna koníaks­glös sem lágu þarna á gólfinu brotin. Ef þetta hefði verið ein­hver Jón úti í bæ þá hefði maðurinn verið á­kærður fyrir skemmdar­verk,“ segir Ragna.

Vissu­lega, segir Ragna, hafi Jón verið þarna að verki, en það var enginn Jón úti í bæ heldur fyrr­verandi utan­ríkis­ráð­herrann Jón Bald­vin Hannibals­son. „Þarna var hann að brjóta allt og bramla, þessi heldri maður. Allt í einu þeysist hann inn í eld­hús og galar: Mig vantar kven­mann! Hann rýkur á mig, kemur aftan að mér, grípur utan um mig og klípur í brjóstin á mér. Ég gat ekkert losnað frá honum,“ segir Ragna.


„Ég var ekki í þessari vinnu til að láta áreita mig svona.“


Ragna Björg á þeim tíma sem hún vann í Ráðherrabústaðnum.
Mynd:Aðsend

Nú mörgum árum síðar hugsar hún enn um þetta at­vik. Hún hafði áður á sinni tíð unnið á karla­stöðum, þar sem hún var oft eina konan, en aldrei lent í neinu þessu líku. „Ég var ekki í þessari vinnu til að láta á­reita mig svona. Bara alls ekki. Ég man að ég gargaði á hann: Farðu karland­skoti!“

Yfir­maður Rögnu, Elías Einars­son, skarst þá í leikinn og náði að slíta Jón Bald­vin frá Rögnu. „Þá ætlaði hann að rjúka á þessu ungu stúlku sem var að að­stoða mig. Þá kallar yfir­maður minn: Láttu hana vera, hún er bara 13 ára. Hann sagði þetta til að stöðva hann,“ út­skýrir Ragna.

Þá ætlaði yfir­maðurinn að skutla Jóni Bald­vini heim en hann neitaði að yfir­gefa Ráð­herra­bú­staðinn án stúlkunnar. Ragna segist hafa séð þau fara öll saman í bílinn.

„Mér fannst þetta svo ó­geðs­legt og mér brá svo of­boðs­lega. Mér leið eins og ég væri stödd í ein­hverri vit­firringa­ver­öld. Þetta var bara því­líkur við­bjóður og ég hef aldrei getað horft á hann aftur í sjón­varpi.“

„Þetta er sagan enda­lausa og konur eru orðnar svo þreyttar á því að þurfa að svara lygum geranda sinna.“
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„Konur sem segja frá eru geðveikar“

Jón Bald­vin hefur áður svarað fyrir þessa sögu, þegar hún birtist nafn­laust á Face­book, á bloggsíðunni MeToo Jón Baldvin og í fjöl­miðlum. Sagðist hann ekki hafa verið gestur í Ráð­herra­bú­staðnum á þessum tíma, árið 1996, og að veislu­þjónusta ríkisins geti sýnt fram á það.

Elías Einars­son undir­ritaði bréf sem „veisluhöldur ríkisins“ þar sem hann full­yrti að frá­sögnin gæti ekki staðist þar sem Jón Bald­vin hafi ekki verið skráður sem veislu­gestur á þeim tíma. Að­spurð segir Ragna að enginn slíkur gestalisti sé til. Hún telji að það hafi ekki verið haldið utan um hverjir kæmu inn og út úr Ráð­herra­bú­staðnum. Fólk átti til að koma og fara eins og það vildi, sér­stak­lega í sam­kvæmum. Elías var einnig yfir­maður Rögnu og ungrar stúlku sem ræðir einnnig við Frétta­blaðið um meint at­vik. Ef marka má frá­sagnir þeirra þá var hann sjálfur á staðnum þegar Jón Bald­vin á að hafa veist að Rögnu og gripið utan um brjóstin á henni.

Ragna segist vera von­svikin út í þá sem af­neita frá­sögnum þol­enda Jóns Bald­vins. Kol­finna Baldurs­dóttir, dóttir Jóns Bald­vins, birti skoðana­grein á Vísi í nóvember í fyrra þar sem hún sagði söguna úr Ráð­herra­bú­staðnum vera upp­spuna frá rótum. Jón Bald­vin skrifaði á bloggsíðu sinni að Al­dís Schram, önnur dóttir hans, væri höfundur þessarar sögu. „Höfundurinn, sem leynist þar að baki, er Al­dís Bald­vins­dóttir, nú þekktari undir nafninu Al­dís Schram,“ skrifaði hann í febrúar 2019. Ragna segist vilja svara fyrir þessar á­sakanir með því að koma fram.

„Konur sem segja frá eru geð­veikar. Það er syndrómið í þessum mönnum, þeir geta ekkert annað en kallað konur geð­veikar sem dirfast að stíga fram. Þetta er sagan enda­lausa og konur eru orðnar svo þreyttar á því að þurfa að svara lygum geranda sinna. Fólk lætur eins og Me Too sé bara búið. Það er ekkert búið.“

Stúlkan í Ráðherrabústaðnum staðfestir söguna

Elías Einarsson sem veisluhöldur ríkisins full­yrti árið 2019 að enginn undir lög­aldri hafi starfað hjá Ráð­herra­bú­staðnum árið 1996.

Frétta­blaðið hafði uppi á Elísa­betu Sif Helga­dóttur, ungu stúlkunni í sögunni. Að­spurð um kvöldið segist hún muna vel eftir því en hún var 16 ára þegar hún vann í Ráð­herra­bú­staðnum. Hún stað­festir frá­sögn Rögnu um að Jón Bald­vin hafi veist að henni og gripið utan um hana. Segir hún ekkert frekar hafa gerst milli sín og Jóns Bald­vins.

„Yfir­maðurinn sá til þess að hann náði ekkert til mín,“ segir Elísa­bet og bætir við að henn hafi þótt Jón Bald­vin rudda­legur.

Ragna og Elísabet voru að vinna í eldhúsinu í Ráðherrabústaðnum árið 1996.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Af hverju situr þú ekki við þetta borð? Er þessi stóll ekki fyrir þig?

Sigur­björg Jóns­dóttir hefur starfað í 20 ár sem stuðnings­full­trúi í grunn­skóla og segist elska að sjá börn blómstra og þroskast. Hún lýsir því hvernig hún varð fyrir á­reitni á grunn­skóla­aldri af hendi Jóns Bald­vins, sem var þá ensku­kennari hennar í Haga­skóla.

Sigur­björg minnist þess þegar hann bað hana um að koma í auka­tíma sama dag og jóla­fríið hófst. Hún hafi orðið mjög hissa en fylgdi þó fyrir­mælum hans og mætti í auka­tímann. Það var kalt úti en ekki byrjað að snjóa. Sigur­björg segist hafa gengið ein um skóla­gangana og komið að kennslu­stofunni þar sem hún sá tvo stóla og tvö borð og gerði ráð fyrir að annað væri fyrir hana og hitt fyrir hann.

„Ég sest bara niður og ætla að hefjast handa við að læra. Hann stóð við gluggann og horfði út. Eftir nokkra stund gengur hann svo að mér og sest fyrir aftan mig, þannig að ég þrýstist alveg upp við borðið,“ segir Sigur­björg. Henni brá og reyndi að brjóta heilann um hvað hún ætti að gera næst. Segist hún þá hafa fundið fyrir hreyfingum frá honum upp við bakið á sér.

„Hann sat þétt upp við mig og ég fann fyrir aftan mig að hann var harður og eitt­hvað var að gerast.“ Hún ýtti frá sér borðinu af öllum krafti og stóð upp og benti á kennara­borðið.

„Þá spurði ég hann: Af hverju situr þú ekki við þetta borð Er þessi stóll ekki fyrir þig?“ Þá hafi hann horft á hana og sagt að tíminn væri búinn og ætlaði þá Sigur­björg að yfir­gefa kennslu­stofuna. „Þá fer hann fram fyrir mig og grípur kápuna mína. Hann heldur á henni til þess að klæða mig í hana, svo var hann heil­lengi að dúlla sér við að hneppa henni upp. Ég var líka með der­húfu sem hann setti á höfuðið á mér og lagaði. Hann horfði á mig og sagði mér að skemmta mér hóf­lega í fríinu. Svo bætti hann við að hann ætlaði að kalla á mig í annan auka­tíma.“

Maí 1967 fyrir utan Hagaskóla. Sigurbjörg er hægra megin með vinkonu sinni eftir að hafa lokið við að taka landsprófið.
Mynd: Bragi Guðmundsson

„Ég var bara 15 ára og þegar ég hugsa til baka þá er ég svo ánægð með hvað ég var ákveðin.“


Fékk hnút í magann þegar síminn hringdi

Sigur­björg yfir­gaf kennslu­stofuna og gekk út úr skóla­byggingunni.

„Ég átta mig á því að við vorum ein í byggingunni. Ég heyrði engar raddir og sá engan. Svo gekk ég út í heið­skýran daginn. Ég man svo vel að það var fal­legur og bjartur desember­dagur og ég gleymi því aldrei hvað ég var fegin að fá allt súr­efnið sem ég gat tekið inn því ég var al­gjör­lega búin. Ég var bara að niður­lútum komin þarna með honum. Ég tók andann djúpt og gekk á­fram og þorði ekki að líta aftur fyrir mig. Mig langaði ekki að vita hvort hann stæði út í glugga að góna eða hvort hann væri að fara eftir mér. Ég gekk bara mínum skrefum alla leið heim, henti frá mér töskunni og sagði við mömmu: Veistu mamma, ég er komin í jóla­frí og ef Jón Bald­vin hringir og segir mér að koma í auka­tíma, þá fer ég ekki. Segðu að ég sé komin í jóla­frí og að þú megir ekki missa mig. Svo í fríinu, alltaf þegar síminn hringdi, þá fékk ég hnút í magann. Ég hleraði allt til þess að vita hvað mamma myndi segja í símann.“

Milli jóla og ný­árs fór Sigur­björg í Ár­bæinn til að heim­sækja skóla­systur sína og til að heilsa upp á annan ensku­kennara. Hún ætlaði að taka málin í eigin hendur.

„Skóla­systir mín bjó í Ár­bænum í einni blokkinni og ég vissi af öðrum ensku­kennara sem bjó í sömu blokk. Hann var kennari í Haga­skóla á þessum tíma og því fannst mér upp­lagt að ræða við hann. Ég gerði mér eina ferð þangað á milli jóla og ný­árs, ýtti á bjölluna hjá honum og spurði hvort ég mætti koma upp að spjalla við hann. Hann hleypti mér inn og þá spurði ég hvort hann vildi koma að kenna mér ensku þegar skólinn byrjaði aftur. Hann sam­þykkir það og það var mikill léttir.“

Svo byrjað skólinn aftur á nýju ári. „Jón Bald­vin kom labbandi að mér og sagði: Nú kemur þú upp til mín í dag. Ég sneri mér að honum og sagði: Nei, ég kem ekki til þín, ég er hætt hjá þér. Nú, spurði hann. Já, svaraði ég. Þú veist hvers vegna. Ég er byrjuð hjá öðrum kennara.“

Sigur­björg segir að þó hún hafi verið ung hafi hún vitað að þetta væri ekki eðli­legt. „Ég var bara 15 ára og þegar ég hugsa til baka þá er ég svo á­nægð með hvað ég var á­kveðin.“

Sigurbjörg, ávallt kölluð Begga, er stuðningsfulltrúi í dag.
Mynd: Andrew Miller

„Þó að það séu mörg ár síðan að þetta gerðist þá er þetta landsþekktur maður og þetta rifjast upp í hvert sinn sem maður sér hann.“


„Varst þú einhvern tímann með Jóni Baldvini?“

Tveimur árum seinna þegar Sigur­björg var í Hús­mæðra­skólanum, var hún minnt á at­vikið í auka­tímanum af skóla­systur sinni úr Haga­skóla.
„Þá kemur hún til mín og spyr: Varst þú ein­hvern tímann með Jóni Bald­vini? Þá átti hún við hvort ég hefði verið í sam­bandi með honum. Ég bara nei, ég var aldrei með honum.“

Þá hafi sauma­klúbburinn verið að spjalla um tímana í Haga­skóla og nafn Sigur­bjargar borist í tal. „Ég hugsaði bara, vá var þetta svona aug­ljóst? Hvernig hann var í kringum mig?“

Stúlkur í Húsmæðraskólanum við Sólvallagötu árið 1970.
Mynd: Úr myndasafni Hússtjórnarskólans

„Mér leið ekkert vel“

Sigur­björg segir að þegar hún líti til baka þá sé þetta at­vik sem gerðist inni í skóla­stofunni ekki ein­angrað til­vik, þó það hafi verið það grófasta. Hann hafi sýnt henni ó­venju mikinn á­huga, sem gæti talist ó­við­eig­andi af kennara.

„Þegar ég fór út í frí­mínútur þá átti hann til að bíða við dyrnar og spurði oft hvort ég vildi ekki spjalla við hann. Þá löbbuðu bekkjar­fé­lagarnir mínir fram­hjá og blístruðu, gáfu þannig í skyn að það væri eitt­hvað á milli okkar. Mér leið ekkert vel. Ég hélt alltaf að hann vildi tala um námið en það var aldrei þannig, hann vildi frekar hrósa út­litinu mínu, hversu flott ég væri og hvað kjóllinn væri rosa­lega flottur á mér. Þá spurði ég hvort hann vildi virki­lega bara tala um þetta og hann svaraði játandi. Þá fór ég í burtu frá honum og út í frí­mínútur.“

Hún segir að Jón Bald­vin hafi angað af á­fengi þegar hann kenndi á laugar­dags­morgnum. „Þá kom hann alveg upp að mér og hvíslaði að mér: Hvar varst þú í gær­kveldi? Varstu að skemmta þér? Mér fannst hann bara vera ein­hver kall og það var ó­geðs­legt að fá svona at­hygli frá honum. Maður hafði heyrt alls konar sögur um hann en maður trúði því aldrei.“

Sigur­björg segist á­nægð með sjálfa sig og að hún fái stuðning frá systrum sínum, tengda­dætrum og manni sínum. „Þó að það séu mörg ár síðan að þetta gerðist þá er þetta lands­þekktur maður og þetta rifjast upp í hvert sinn sem maður sér hann.“


„Í full­komnum heimi myndi hann biðjast af­sökunar en hann mun held ég aldrei gera það.“


Frá­sögn hennar og Rögnu svipar til annarra sem hafa verið deilt á Me-too síðu um Jón Bald­vin, þar sem meðal annars fyrr­verandi nem­endur hans lýsa svipaðri reynslu. Konur sem halda úti Face­book hópnum #met­oo Jón Bald­vin Hannibals­son birtu í fyrra 23 nafn­lausar frá­sagnir frá jafn­mörgum konum á sér­stakri blogg­síðu. Þær gerast á 60 ára tíma­bili og lýsa meintri kyn­ferðis­legri á­reitni Jóns Bald­vins.

Í dag hafa fleiri frá­sagnir bæst í hópinn sem enn á eftir að birta og eru þær 45 alls sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins. Hingað til hafa sjö konur stigið fram undir nafni og deilt sögum sínum en nú þegar Ragna og Sigur­björg greina frá sínum sögum eru þær orðnar níu.

Í byrjun janúar á þessu ári var á­kæru á hendur Jóni Bald­vini vísað frá. Var meint kyn­ferðisleg áreitni gegn Car­men Jóhanns­dóttur ekki talin falla undir brot sem lýst er í spænsku á­kvæði um kyn­ferðis­lega mis­notkun sem vísað var til í á­kærunni en brotavettvangur var á Spáni. Héraðs­sak­sóknari hyggst kæra frá­vísun á máli Jóns Bald­vins Hannibals­sonar til Lands­réttar.

Aldís Schram þegar hún ávarpaði Druslugönguna á Austurvelli árið 2019.
Fréttablaðið/Valli

„Hræðilegt að sjá hann mála dóttur sína geðveika“

Al­dís Schram, dóttir Jóns Bald­vins, hefur sakað föður sinn um kyn­ferðis­lega á­reitni. Hún var nauðungar­vistuð á geð­deild árið 1998 og greind með geð­hvarfa­sýki. Jón Bald­vin hefur sagt að frá­­sagn­ir kvenn­anna eigi ræt­ur að rekja til Al­dísar, málið sé „fjöl­­skyldu­harm­­leikur“ og að Al­­dís hafi átt við geð­ræn vanda­­mál að stríða. Aldís var þó ekki sú sem tók saman frásagnirnar á blogginu #MeToo Jón Baldvin en Fréttablaðið hefur fengið staðfestingu á því frá forsvarskonum hópsins.

Hún hefur síðan þá fengið stað­festingu frá öðrum geð­lækni að hún hafi verið rang­lega greind en að hún sé með á­falla­streitu­röskun. Eins hefur Páll Matthías­son, for­stjóri Land­spítalans, sagt upp­haf­lega mat geð­lækna sem nauðungar­vistuðu Al­dísi „ekki hafið yfir allan vafa.“

Beiðni Jóns Baldvins um nauðungarvistun dóttur sinnar á bréfi frá Sendiráði Íslands í Washington.

Sigur­björg segist hafa fylgst með máli Al­dísar og vilji sýna henni stuðning með því að deila sögu sinni.

„Það er hræði­legt að sjá hann mála dóttur sína sem geð­veika. Ég vil segja mína sögu til að styðja við Al­dísi. Hún verður að fá sitt rétt­læti. Ég hef engan hefndar­þorsta gagn­vart Jóni Bald­vini, ekki lengur, því ég sé hann sem sjúk­ling, bæði hann og konu hans. Ég held að hann átti sig ekki á því að það sem hann gerði var rangt og það segir manni að þau þurfi bæði á hjálp að halda. Í full­komnum heimi myndi hann biðjast af­sökunar en hann mun held ég aldrei gera það.“

Jón Baldvin árið 1996 þegar hann lét af formennsku sinni í Alþýðuflokknum, sama ár og Ragna og Elísabet segja að hann hafi veist að Rögnu og gripið um brjóstin á henni.
Fréttablaðið/Pjetur Sigurðsson

Viðbrögð Jóns Baldvins

Jón Baldvin fékk eftirfarandi spurningar í tölvupósti frá blaðamanni Fréttablaðsins við vinnslu greinarinnar:

Mættir þú í ráðherrabústaðinn árið 1996, árið sem þú lést af formennsku þinni í Alþýðuflokknum?

Varst þú gestur í samkvæmi í Ráðherrabústaðnum árið 1996 þar sem þú veittist að og greipst utan um brjóstin á Rögnu B. Björnsdóttur matráðskonu?

Skutlaði Elías Einarsson, starfsmaður Ráðherrabústaðarins, þér heim eftir umrætt samkvæmi?

Baðst þú Elías um að undirrita vottorð um að þú hafir ekki mætt í Ráðherrabústaðinn þetta ár?

Kannast þú við fyrrverandi nemenda þinn Sigurbjörgu Jónsdóttur í Hagaskóla? Baðstu hana um að koma í aukatíma til þín í jólafrí fyrir áramótin 1966/1967? Áreittir þú hana kynferðislega í umræddum aukatíma?

Svar Jóns Baldvins

Ég hef svarað öllum þessum spurningum áður opinberlega. Svörin er að finna í viðhengi "Sannleikurinn fyrsta fórnarlambið" og á vefsíðu minni "Söguburður" https://jbh.is/?p=1501

Í viðhengi tölvupósts frá Jóni Baldvini er fjögurra blaðsíðna skjal þar sem hann svarar fyrir 12 sögur sem birst höfðu. Hefst skjalið á eftirfarandi orðum:

„Hópur kvenna hefur sem kunnugt er birt opinberlega frásagnir sínar af samskiptum við mig (og Bryndísi konu mína í níu tilvikum) á undanförnum árum. Sex þeirra taka ábyrgð á orðum sínum með því að vitna undir nafni. Þeim hef ég þegar svarað (sjá www.jbh.is – Vitnaleiðslur).“

Frá blaðamanni Fréttablaðsins:

Sæll og takk fyrir skjót svör,

Þessar konur hafa ekki komið fram undir nafni áður. Það breytir ekki svari þínu?

Svar Jóns Baldvins

Nei.

Athugasemdir