Auðunn Lúthers­son, betur þekktur sem Auður, sendi frá sér yfir­lýsingu í gær þar sem hann baðst af­sökunar og kvaðst hafa gengið yfir mörk. Tón­listar­maðurinn þver­tók þó fyrir flökku­sögur um al­var­leg af­brot.

Borið hefur hátt á um­ræðum um meint brot Auðuns á sam­fé­lags­miðlum síðast­liðna daga og hafa á­sakanirnar orðið til þess að Auður mun ekki koma fram á tón­leikum Bubba í komandi viku eða á sviði Þjóð­leik­hússins í upp­setningu Rómeó og Júlíu næsta haust.

Blaut tuska í and­litið

Af­sökunar­beiðni Auðuns varð síðan til þess að þrjár konur hafa stigið fram og lýst kyn­ferðis­legu of­beldi af hálfu Auðuns.

„Þessi af­sökunar­beiðni er eins og blaut tuska í and­litið,“ sagði ein kvennanna á Twitter og greindi frá því að Auðunn hefði fengið hana til að gera eitt­hvað sem hún vildi alls ekki. „Ég, ung og vissi ekkert og hann vin­sæll og frægur.“

Í yfir­lýsingu sinni vísaði Auðunn sér­stak­lega til tveggja ára brots. „Árið 2019 fór ég yfir mörk konu án þess að átta mig á því fyrr en við töluðum saman síðar,“ sagði Auðunn, sem kvaðst hafa beðist af­sökunar og reynt að axla á­byrgð.

Baðst af­sökunar á brotinu

Önnur kona gagn­rýndi að tón­listar­maðurinn tæki einungis opin­ber­lega á­byrgð á broti gegn konunni sem hafði sakað hann um of­beldi opin­ber­lega en ekki gagn­vart öðrum sem hann vissi þó af.

„Hann vissi að hann braut á mér þar sem ég talaði við hann um það nokkrum dögum eftir at­burðinn en ég á­kvað að fyrir­gefa honum. Hann hringdi í mig fyrir nokkrum vikum og sagðist taka fulla á­byrgð á því sem hann hefur gert en þessi opin­bera af­sökunar­beiðni var eins og blaut tuska í and­litið og al­gjör u-beygja.“

Þriðja konan sagði tón­listar­manninn síðan hafa á­reitt sig í­trekað og látið henni líða illa. Hún birti síðar skjá­skot þar sem hún sagði Auðunn hafa séð um­rædda færslu og hafa í kjöl­farið hætt að fylgja henni á sam­fé­lags­miðlum.