Sex daga ferða­lag til Ís­lands, sem var 50 ára af­mælis­gjöf banda­ríska skatt­heimtu­mannsins J.R. Kroll breyttist í tíu daga ein­angrun á far­sóttar­húsi í Reykjavík. Hann segist ekki hugsa illa til landsins þrátt fyrir það, í við­tali við banda­ríska staðar­miðilinn Or­lando Sentinal.

Ríkis­út­varpið greindi fyrst frá fríi skatt­heimtu­mannsins, sem segist hafa hlakkað mikið til ferða­lagsins sem hann fékk í gjöf frá eigin­konu sinni. „Ég hugsaði: Vá þetta hljómar eins og frá­bær ferð,“ út­skýrir Kroll.

Kroll greindist hins­vegar já­kvæður fyrir CO­VID stuttu eftir komuna til Ís­lands og varð því að dúsa í far­sóttar­húsi yfir­valda. Hann lýsir her­berginu sem snubbóttu (e. cruddy) og segist hafa fengið þrjár kaldar mál­tíðir á dag.

„Þú máttir ekki opna hurðina. Og ef ég hefði farið, þá hefði ég verið hand­tekinn,“ segir Kroll við miðilinn. Hann kom heim á fimmtu­daginn síðasta.

Hann segist hafa eytt flestum dögum í að labba um her­bergið sitt, gera arm­beygur, leggja sig og skoða inter­netið í símanum sínum auk þess sem hann horfði út um gluggann. Hann segir flest sjón­varps­efnið hafa verið á ís­lensku en ein eða tvær stöðvar frá Bret­landi.

„Gæinn í her­berginu við hliðina á mér hljómaði eins og hann gæti þetta ekki lengur, af því að einn daginn heyrði ég í honum byrja að brjóta hluti,“ segir Kroll.

Ber ekki kala til Ís­lands

Þá lýsir Kroll því að eigin­kona hans hafi verið fljót að kaupa sér flug­miða heim til Banda­ríkjanna eftir að hann var lagður inn á far­sóttar­húsið. Hún óttaðist að verða læst þar inni líka.

Þá gefur Kroll matnum ekki háa ein­kunn. Hann segist hafa fengið það sama í morgun­mat á hverjum degi, melónu, harð­soðið egg, brauð með sultu og smjöri og sæta­brauð. „Það var allt kalt. Ég hefði drepið fyrir ör­byl­g­jöfn....ég var klár­lega orðinn ó­ró­legur eftir sjö daga.“

Hann lýsir því þá að hann hafi keypt sér risa­mál­tíð með pönnu­kökum, beikoni og kaffi sama dag og honum var sleppt lausum af far­sóttar­húsinu. Þaðan hafi hann tekið strætó út á Kefla­víkur­flug­völl.

Hann segist engan kala bera til Ís­lands. „Kerfið þeirra virkar. Þetta er að halda CO­VID smitunum og sjúkra­hús­inn­lögnum þeirra fá­rán­lega langt niðri...en við gætum ekki gert þetta hér í Banda­ríkjunum....hér í Banda­ríkjunum myndi fólk ekki sætta sig við þetta. En þau eru að gera það sem þau geta til að halda smitunum niðri.“

Kroll segist aldrei hafa orðið al­var­lega veikur. Hann ætlar ekki að ferðast aftur í bráð. „Svo lengi sem CO­VID er til þá fer ég hvergi. Þetta var svaka­leg lífs­reynsla.“