Þrjár íslenskar konur slösuðust á Tenerife á sunnudag þegar pálmatré brotnaði. Allar eru þær á fimmtugsaldri og er ein þeirra alvarlega slösuð eftir atvikið. Hinar tvær eru með minni háttar áverka.

Slysið gerðist um fjögurleytið á Rafael Puig Lluvia-götunni í Las Verónicas, norðan við Los Cristianos á Amerísku ströndinni, helsta ferðamannastað eyjunnar. Bæði slökkvilið og sjúkralið komu fljótlega á staðinn og voru konurnar fluttar hver á sitt sjúkrahúsið. Lögreglan á staðnum hefur skoðað vettvang en ekki fundið neinar skýringar á slysinu.