Lögreglu hafa borist fleiri tilkynningar um sprengjuhótanir í morgun og hefur verið gripið til aðgerða vegna þessa hjá þremur öðrum stofnunum, auk Menntaskólans við Hamrahlíð.

Lögreglan telur sig vita hver stendur að baki þessum hótunum. Sérsveitin leitaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð í morgun og fann enga sprengju.

Sprengjuhótun barst Menntaskólanum við Hamrahlíð í nótt í gegnum tölvupóst og setti þá Steinn Jóhannsson, rektor MH, af stað viðbragðsáætlun.

Lögregla mætti á vettvang um leið og tilkynnt var um málið og gripið var til viðeigandi ráðstafana, sem miðuðu að því að leita af sér allan grun. Sérsveit ríkislögreglustjóra kom á vettvang ásamt sprengjuleitarsveit Landhelgisgæslunnar.

Nemendur skólans fengu skilaboð frá rektor í morgun um að kennsla yrði felld niður fram að hádegi.