Sjúk­lingur lést í Texas að­eins þrjá­tíu ára að aldri eftir að hafa farið í svo­kallaða „Co­vid veislu“ þar sem hann smitaðist af veirunni.

„Rétt áður en sjúk­lingurinn lést horfði hann á hjúkrunar­fræðinginn og sagði „Ég held að ég hafi gert mis­tök, ég hélt að þetta væri blekking en þetta er það ekki,“ sagði Jane App­leby, hjúkrunar­for­stjóri Met­hodist sjúkra­hússins í San Antonio.

„Við viljum ekki vera hrak­spá­menn en við viljum reyna að deila raun­veru­legum til­fellum til að hjálpa sam­fé­laginu okkar að gera sér grein fyrir að þessi veira er mjög al­var­leg og dreifist auð­veld­lega.“

Skipu­lagðar smit­veislur

Co­vid-19 veislur hafa rutt sér til rúms í Banda­ríkjunum í kjöl­far far­aldursins og hafa yfir­völd víða varað við slíkum sam­kvæmum. Veislurnar eru skipu­lagðar þannig að fólk sem ekki hefur fengið sjúk­dóminn geti blandað geði við smitaða ein­stak­ling og þannig sýkst af veirunni.

App­leby segist hafa fundið sig knúna til að greina frá málinu eftir að hafa tekið eftir „var­huga­verðri“ aukningu smita. Hún benti á að 22 prósent sýna væru nú já­kvæð fyrir veirunni miðað við að­eins fimm prósent nokkrum vikum áður.

Þá færðist það í aukanna að fólk milli tví­tugs og þrí­tugs væri al­var­lega veikt af sjúk­dómnum. „Gangið með grímu, haldið ykkur heima þegar þið getir, forðist mann­mergð og sótt­hreinsið á ykkur hendurnar,“ brýndi App­leby fyrir Texas-búum.