Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði þrjá í áframhaldandi gæsluvarðhald í dag vegna morðsins í Rauðagerði. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfestir þetta.
Tveir voru úrskurðaðir í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald til miðvikudagsins 17. mars og einn var úrskurðaður í áframhaldandi vikulangt gæsluvarðhald til miðvikudagsins 10. mars.
Gæsluvarðhald yfir einum rann út í dag og var sá úrskurðaður í fjögurra vikna farbann til miðvikudagsins 31. mars.
Fjórir eru nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins, fimm hafa verið úrskurðaðir í farbann og alls tólf eru með réttarstöðu sakbornings.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að hluti þeirra einstaklinga sem eru með réttarstöðu sakbornings hafa áður komið við sögu lögreglu í heimalöndum sínum.
Rannsókn morðsins er umfangsmikil og teygir anga sín út fyrir landsteinana en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur með löggæslu frá heimalöndum hinna grunuðu við að rekja mögulegan sakaferil þeirra.
Armando Beqirai var myrtur í Rauðagerði þann 13. febrúar síðastliðinn. Hann var frá Albaníu en búsettur á Íslandi og lætur eftir sig íslenska eiginkonu og eitt barn. Armando starfaði við öryggisgæslu og kom að rekstri fyrirtækisins Top Guard sem annaðist meðal annars dyravörslu á skemmtistöðum í Reykjavík.