Íbúi í hús­næði Út­lendinga­stofnunar að Grens­ás­vegi segir við Frétta­blaðið að hann sé gáttaður á mál­flutningi stofnunarinnar vegna á­bendinga íbúa þar um að­stæður í húsinu. Hann gisti með tveimur öðrum í herbergi, ólíkt því sem upplýsingafulltrúi stofnunarinnar sagði í gær um húsið.

Um er að ræða sama íbúa og sagði frá því í um­fjöllun Frétta­blaðsins í gær að hann teldi að­stæður íbúa í húsinu hræði­legar. Sagði hann íbúa jafn­framt hafa miklar á­hyggjur af sótt­vörnum þar sem allt að 3-5 mann­eskjur væru saman í her­bergjum.

Hafði Þór­hildur Ósk Haga­lín, upp­lýsinga­full­trúi stofnunarinnar aðra sögu að segja af að­stæðum íbúa í húsinu þegar Frétta­blaðið leitaði svara hjá henni í gær. Sagði Þór­hildur til að mynda einungis eina koju í her­bergjum og því ein­göngu pláss fyrir tvo í hverju her­bergi.

Tók hún fram að Út­lendinga­stofnun þætti leitt að geta ekki boðið upp á ein­stak­lings­her­bergi og tók hún fram að um tíma­bundið úr­ræði væri að ræða. „Þannig það er tví­mennt í her­bergi og ekki fleiri, nema um sé að ræða fjöl­skyldu­her­bergi eða eitt­hvað slíkt. En í úr­ræðum fyrir staka karl­menn þá eru það tveir,“ sagði hún í gær.

Ekki sá eini sem gistir með fleiri en einum

Í­búinn, sem vill ekki láta nafns síns getið vegna ótta að það hafi á­hrif á stöðu hans gagn­vart Út­lendinga­stofnun, segist furða sig á full­yrðingunum í sam­tali við blaðið.

Hann bendir á að þrír gisti í sínu her­bergi, hann og tveir aðrir. Mynd­band sem maðurinn hefur sent Frétta­blaðinu stað­festir frá­sögn mannsins. Hann lýsti því í gær að hann hefði á­hyggjur af sótt­vörnum í húsinu og þeim fjölda íbúa sem þar búa í litlu rými.

„Hér er svo her­bergi númer 14 og þar gista núna þrír,“ segir maðurinn í öðru mynd­bandi sem hann hefur sent frétta­stofu. Hann segir að í morgun hafi hann fengið lof­orð frá stofnuninni um að þriðja manneskjan verði færð úr her­berginu hans. Telur hann að fjölmiðlaumfjöllun um málið hafi haft þar áhrif á en hann segir ljóst að sóttvarna sé ekki gætt.

Þá segir íbúinn að fleiri en tveir gisti í að minnsta þremur her­bergjum hússins, ó­líkt því sem fram kom í máli Þór­hildar, upp­lýsinga­full­trúa. Þá segir hann annað í mál­flutningi hennar ekki standast. „Við höfum aldrei fengið neitt spritt og ekki höfum við fengið grímur. Svo þetta er ein­fald­lega ekki satt,“ segir maðurinn.

Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend