Þrír voru fluttir á slysadeild eftir eldsvoða í íbúð í Mávahlíð í nótt. Tveimur þeirra var bjargað út um glugga íbúðarinnar. Engar upplýsingar liggja fyrir um líðan þeirra. Nær allt tiltækt slökkvilið sinnti eldsvoðanum, sem var í fjölbýlishúsi. Vísir sagði fyrst frá.

Tilkynning um eldinn barst á öðrum tímanum í nótt og þegar slökkvilið kom á vettvang var mikill reykur að koma úr kjallaraíbúð og eldur var sjáanlegur í anddyrinu, samkvæmt Gunnlaugi Jónssyni, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu.

Í samtali við Vísi segir hann að reykkafarar hafi strax verið sendir í íbúðina og á afar skömmum tíma hafi þeim tekist að bjarga tveimur einstaklingum út um glugga. Þau voru flutt á slysadeild til aðhlynningar, ásamt einum í viðbót, en engar upplýsingar liggja fyrir um líðan fólksins.

Samkvæmt vef RÚV var reykræstingu lokið á fjórða tímanum og íbúðin er mikið skemmd.

Fjölbýlishúsið sem eldurinn logaði í var rýmt, en reykur hafði þegar komist inn í aðrar íbúðir í húsinu. Áfallateymi Rauða krossins var fengið til að aðstoða íbúa.

Eldsupptök liggja ekki fyrir en tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að rannsaka þau.