Jarðskjálftavirkni við Grímsey jókst í nótt og rétt fyrir klukkan þrjú varð skjálfti af stærðinni 4,3 og eftirskjálfti af stærðinni 3,4. Jarðskjálftahrina hófst um 12 kílómetra norðaustur af Grímsey í gær en þá varð skjálfti af stærðini 3,7 auk minni eftirskjálfta.
Rétt upp úr klukkan hálf fjögur í nótt urðu síðan tveir skjálftar yfir 4 að stærð með skömmu millibili. Mældust þeir 4,2 og 4,3 að stærð. Þeim fylgdi síðan skjálfti af stærð 3,5.
„Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að stærstu skjálftarnir hafi fundist víða á Norðurlandi. Fjöldi minni eftirskjálfta mælist nú á svæðinu,“ segir í tilkynningu frá náttúruvársérfræðingi Veðurstofu Íslands.
Bent er á að öflug jarðskjálftahrina hafi orðið á þessum slóðum í febrúar 2018 en þá mældist stærsti skjálftinn 5,2 að stærð.
Veðurstofan bendir fólki sem býr á þekktum skjálftasvæðum á að kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta.