Rétt eftir fimm í gær handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þrjá einstaklinga sem voru grunaðir um nytjastuld á ökutæki og eignaspjöll. Einn þeirra var að auki grunaður um akstur undir áhrifum. Þetta kom fram í tilkynningu frá lögreglu.

Rétt fyrir hálftólf í gærkvöldi var tilkynnt um tvo einstaklinga sem voru að reyna að brjótast inn í miðborginni. Þeir fóru á brott þegar þeir urðu varir við húsráðanda. Rétt eftir hálfsjö var líka tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í miðborginni.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum, tveir þeirra eru einnig grunaðir um vörslu fíkniefna.

Skömmu eftir sex var tilkynnt um eignaspjöll á bifreið í Mosfellsbæ, búið var að brjóta rúðu í bifreiðinni.

Klukkan átta var tilkynnt um eld í bifhjóli á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ, en bifhjólið er mikið skemmt.

Rétt eftir ellefu var tilkynnt um skemmdarverk í miðborginni, en einstaklingur gekk á milli bíla og skemmdi þá.

Skömmu eftir níu var óskað eftir aðstoð á skemmtistað í miðborginni vegna einstaklings sem var til vandræða og um hálfsex var óskað eftir aðstoð lögreglu í Gistiskýlinu vegna ölvaðs manns sem lét ófriðlega.

Rétt fyrir ellefu voru höfð afskipti af einstakling í Laugardal sem var grunaður um vörslu fíkniefna.

Klukkan hálfsex var tilkynnt um ölvaðan einstakling sem svaf á stigagangi í Hlíðahverfi og honum var komið til síns heima. Rétt fyrir sjö var líka tilkynnt um einstakling sem svaf ölvunarsvefni á veitingastað í Háaleitishverfi.

Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um mikinn samkvæmishávaða í miðborginni.