Fámennt var á ríkisstjórnarfundi í morgun og aðeins einn úr liði Sjálfstæðisflokksins mættur, Jón Gunnarsson. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Öll ríkisstjórnin var send í PCR próf í gær og í ljós hefur komið að þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru með COVID-19 og því komin í einangrun. Þetta eru Bjarni Benediktsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
Guðlaugur Þór Þórðarson er hins vegar á Tenerife og hefur verið þar síðan fyrir jól.
Aðeins tveir ráðherrar voru með mál á dagskrá ríksistjórnarfundar.
Heilbrigðisráðherra fór yfir stöðu faraldursins innanlands og forsætisráðherra ræddi stöðuna í nágrannaríkjunum.
Þá upplýsti hún ríkisstjórnina um þá ákvörðun sína að áfrýja ekki nýjum dómum um bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála.
Alþingi er enn að ræða fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra en búist er við fjárlagafrumvarp verði samþykkt á morgun eða á fimmtudag.
Auk fyrrnefndra ráðherra er töluvert af þingmönnum í einangrun og því nokkuð margir varaþingmenn inni sem greiða munu atkvæði um fjárlögin.