Þrír piltar hafa viðurkennt að eiga aðild að íkveikju sem leiddi til eldsvoða í Seljaskóla aðfararnótt sunnudagsins 12. maí síðastliðinn. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kemur að rannsókn málsins sé langt kominn. Piltarnir séu undir sjálfræðisaldri og einn undir sakhæfisaldri. Málið hafi verið unnið í samráði við félagsyfirvöld en ekki sé hægt að gefa frekari upplýsingar á þessu stigi.

Gríðarlegt tjón varð í brunanum en eins og Fréttablaðið greindi frá á sunnudaginn kom eldurinn upp í þaki hússins skömmu eftir miðnætti. „Þetta er gríðarlegt tjón. Í húsinu sem kviknaði í eru mjög miklar skemmdir sem við erum að reyna meta en við þurfum að fara nánar í það,“ sagði Magnús Þór Jónsson við Fréttablaðið á sunnudaginn.