Vatt ehf. mun kynna þrjá nýja fólksbíla á íslenskan rafbílamarkað í apríl. Að sögn Úlfars Hinrikssonar, framkvæmdarstjóra BYD á Íslandi, mun verð bílanna liggja fyrir í byrjun næsta mánaðar en þeir verða á góðu verði miðað við samkeppnisaðila hérlendis. „Við erum mjög spennt fyrir að fá þetta merki til landsins sem er það stærsta í bílaheiminum í dag,“ segir Úlfar enn fremur. Fólksbílalína BYD mun fá undir sig endurhannaðan sal í Skeifunni þar sem Maxus var áður.

Fjórhjóladrifinn BYD Han er vel búinn og kraftmikill fólksbíll með allt að 610 kílómetra drægi.

Úlfar hefur skoðað þessa bíla nýlega og ber þeim vel söguna. „Fyrir þá sem hafa gaman af bílum er BYD Han spennandi bíll enda bæði aflmikill og einstaklega vel búinn. Hann er í beinni samkeppni við Tesla Model S enda svipaður honum að stærð,“ sagði Úlfar. „Það er mikill lúxus í innréttingu eins og sést vel á rafstillanlegum aftursætum með skjá í armpúða milli sæta.“ BYD Han kemur með fjórhjóladrifi sem skilar samtals 509 hestöflum og er bíllinn aðeins 3,9 sekúndur í hundraðið.

BYD Atto3 er jepplingur í millistærð sem er líkt og aðrir bílar framleiðandans búinn hinum byltingarkenndu Blade-rafhlöðum.

„Búast má við mestri sölu í BYD Atto3-jepplingnum og við finnum vel fyrir áhuga á honum,“ segir Úlfar þegar hann er spurður um væntingar til merkisins. BYD Atto3 mun keppa við bíla eins og Hyundai Kona, Kia Niro og jafnvel Volvo V40 Recharge vegna mikils og góðs búnaðar sem er í bílnum. Nóg framboð mun verða á bílum frá BYD sem koma munu beint frá Noregi til að byrja með. Þriðji bíllinn sem einnig verður kynntur í apríl er BYD Tang sem er sjö sæta, rafdrifinn jepplingur. Sérstök blaðamannakynning verður haldin í Barcelona í aprílmánuði fyrir þau níu lönd í Evrópu sem selja munu BYD-merkið. Bílablaðamaður Fréttablaðsins verður á staðnum og því má búast við fyrstu prófunum á bílum BYD strax í maíútgáfu Bílablaðsins.