Þrír veiddir laxar voru sendir til Haf­rann­sóknar­stofnun Ís­lands árið 2020 grunaðir um að hafa strokið úr sjó­kví. Greining leiddi í ljós að þeir voru allir upp­runnir úr fisk­eldi eftir því sem kemur fram í skýrslu Haf­ró um á­hrif sjó­kvía­eldis á ís­lenska laxa­stofna.

Sam­kvæmt Guðna Guð­bergs­syni, sviðs­stjóra á Fersk­vatns­sviði, eru mjög fáir meintir stroku­laxar að greinast í at­hugunum stofnunarinnar. Þegar fisk­eldi var að færast í aukana um árið 2016 hafi fleiri sloppið en nú sé búið að bæta úr með auknum var­úðar­ráð­stöfunum.

Fram­leiðsla á laxi til slátrunar hefur aukist gríðar­lega undan­farin ár og fer frá um þrjú þúsund tonn árið 2015 í rúm­lega 32 þúsund tonn á síðasta ári.

Fiskeldi hefur færst mikið í aukanna á undanförnum árum.
Skjáskot/Hafrannsóknarstofnun Íslands

Sam­hliða auknu fisk­eldi fylgir á­kveðin hætta fyrir villta laxa­stofna. Helstu á­hrifa­þættir eru stroku­laxar úr eldi og laxalús. Laxalús hefur verið í tals­verðu magni á villtum laxi við Ís­land og í ein­hverjum til­fellum valdið vand­ræðum í lax­eldi sem þurfti lyfja­með­höndlun.

Sam­kvæmt skýrslunni hafa einnig tveir laxar veiðst við Ís­land sem komu úr fisk­eldi í öðru landi. Guðni telur að annar fiskurinn hafi komið frá Noregi og hinn frá Fær­eyjum. Fiskarnir hafi synt yfir hafið og endað í ám á Ís­landi.

Guðni bendir á að flesta stað­festa stroku­laxa hafi verið hægt að rekja aftur til til­kynntra at­vika frá ís­lenskum sjó­kvíum.

Vöktun Haf­ró skiptist í nokkra þætti, eins og kemur fram í frétta­til­kynningu með skýrslunni: „vöktun með fiskteljurum búnum mynda­vélum, greiningu meintra stroku­laxa úr eldi sem veiðast í ám, upp­runa­greining laxa með hreistur­rann­sóknum og rann­sóknir á skyld­leika laxa­stofna og rann­sóknir á erfða­blöndun.“

Hægt er að þekkja meinta strokulaxa á tjásulegum uggum og sporðum.
Skjáskot/Hafrannsóknarstofnun Íslands