Öldungadeildarþingmaðurinn Amy Klobuchar segir í færslu á Twitter að ríkissaksóknarinn í Minnesota, Keith Ellison, hafi ákveðið að breyta ákærunum gegn lögreglumanninum Derek Chauvin úr morð af þriðju gráðu yfir í morð af annari gráðu auk þess sem að þrír lögreglumenn til viðbótar, sem voru á vettvangi, verði ákærðir.

Líkt og áður hefur verið greint frá voru allir fjórir lögreglumennirnir sem voru viðstaddir þegar Floyd lést reknir í kjölfarið en aðeins Chauvin, sem kraup á hálsi Floyd með þeim afleiðingum að hann lést var ákærður.

Búist er við að Ellison tilkynni ákærurnar síðar í dag en Klobuchar vitnaði í frétt StarTribune máli sínu til stuðnings en þar kemur fram að lögreglumennirnir Tou Thao, J. Alexander Kueng og Thomas Lane verði ákærðir fyrir sinn hlut í málinu.

Fjöldi fólks mótmælir nú dauða Floyd víðs vegar í heiminum, þar á meðal hér á Íslandi, en mótmælendur hafa kallað eftir því að lögreglumennirnir verði sóttir til saka. Þrátt fyrir að Chauvin hafi verið ákærður stöðvaði það ekki mótmælin.

Í flestum tilfellum hafa mótmælin farið friðsamlega fram en þeim hafa einnig fylgt ofbeldi, gripdeildir og skemmdarverk í sumum tilfellum. Donald Trump hefur hótað að senda herinn inn í borgir þar sem ekki hefur tekist að ná stjórn á mótmælunum.

Fréttin hefur verið uppfærð.