Að minnsta kosti þrír létust og 43 var bjargað eftir að bátur með flóttamenn sökk í Ermarsundi í dag. Báturinn sökk skammt frá Kent á suðurströnd Englands.

Franska landhelgisgæslan aðstoðaði bresku landhelgisgæsluna við leitina eftir að neyðarkall barst klukkan 3:40 í nótt.

Samkvæmt heimildum Sky News var ákveðið að reyna að komast yfir Ermarsundið þar sem veðurskilyrði þóttu hagstæð, þrátt fyrir gríðarlegan kulda.

Von er á yfirlýsingu frá bresku ríkisstjórninni um málið síðar í dag en Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í gær að von væri á aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar til að bregðast við fjölgun hælisleitenda.