Þrír eru látnir og margir særðir eftir skotárás í verslunarmiðstöðinni Field's í Kaupmannahöfn síðdegis í dag. Þá eru þrír lífshættulega sárir. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í Kaupmannahöfn nú rétt fyrir klukkan ellefu í kvöld að íslenskum tíma.
Að sögn Sørens Thomassen, yfirlögregluþjóns lögreglunnar í Kaupmannahöfn, létust tvö ungmenni og maður á fimmtugsaldri í skotárásinni.
Þá telur lögregla að hinn grunaði hafi verið einn að verki og ekki átt sér neina vitorðsmenn, en hann verður leiddur fyrir dómara í fyrramálið, grunaður um manndráp.
Thomassen segir að Danir geti sofið öruggir í nótt. Lögreglan boðar nýjan blaðmannafund klukkan átta í fyrramálið að dönskum tíma eða klukkan sex að íslenskum tíma.