Þrjár mann­eskjur létust og fimm­tán til við­bótar særðust þegar sjálfs­morðs­sprengju­maður sprengdi sig í loft upp í pakistönsku borginni Quetta í morgun en að því er kemur fram í frétt CNN um málið beindist á­rásin að her­þjálfunar­sveit í borginni. Tölur um fjölda látinna og slasaðra eru þó á reiki og mögulegt að fleiri hafi því látist og særst við árásina.

Tehre­ek-e-Tali­ban Pakistan, pakistönsku talí­banarnir, hafa lýst því yfir að þeir hafi staðið fyrir á­rásinni en þeir hafa áður ráðist á her­þjálfunar­sveitir í borginni. Skæðasta árás talí­bananna var í apríl síðast­liðnum þar sem þau sprengdu sprengju við hótel í borginni þar sem fjórir létust og 12 særðust.

For­sætis­ráð­herra Pakistan, Imran Khan, for­dæmdi á­rásina á Twitter í dag, vottaði að­stand­endum sam­úð sína og bað fyrir þeim sem særðust. Þá þakkaði hann öryggis­sveitum í landinu fyrir að vernda lands­menn gegn hryðju­verka­hópum.

Mikil átök hafa verið síðast­liðna ára­tugi í Balochistan, héraði við landa­mæri Afgan­istan þar sem Quetta er stað­sett, þar sem að­skilnaðar­sinnar krefjast sjálf­stæðis frá Pakistan.