Þrír karlmenn hafa nú látist af sárum sínum eftir að þeir slösuðust í nautahlaupum í Valencia á Spáni. Í nautahlaupunum (bous al carrer) æða naut í gegnum bæi og fólk hleypur gjarnan á undan. Um er að ræða aldagamla hefð í á Spáni en hlaup sem þessi eru haldin á hverju ári.

Einn þeirra, 56 ára gamall maður, var standandi á bak við vörðu á miðri götu þegar naut kastaði honum upp í loftið í smábænum Picassent á Spáni. Hann hlaut banvænan heilaskaða af högginu og lést níu dögum síðar á spítala. Annar lést eftir að naut stakk gat á lunga hans með horni sínu. Þriðji maðurinn var franskur ferðamaður sem lést eftir slys í bænum Pedreguer.

Slys sem þessi eru mjög algengur fylgihlutur hátíðarhaldanna en samkvæmt fréttasíðunni Reuters hafa 478 manns slasast í slíkum hátíðum á þessu ári.

Nautahlaup sem þessi hafa verið harðlega gagnrýnd af dýraverndunarsinnum sem segja hlaupin grimmileg og hættuleg bæði mönnum og dýrum.

Í nautahlaupinu í Denia á Spáni reyna menn að fá nautið til þess að hlaupa að sér og koma því þannig ofan í sjóinn
Mynd/getty
Nautahlaupin eru mjög vinsæl á Spáni og fá jafnvel börn að fylgjast með þeim.
Mynd/getty
Ungir menn reyna að fá nautið til þess að stanga sig.
Mynd/getty
Þessi maður reyndi að draga nautið með sér ofan í sjóinn.
Mynd/getty