Þrír Íslendingar hafa fengið bætur vegna líkamlegs tjóns eftir bólusetningu gegn kórónuveirunni. RÚV greindi frá þessu í gær.
Það hafa alls 40 sótt um bætur vegna tjóns af völdum bólusetningar, en tveimur umsóknum hefur nú þegar verið hafnað. Aðrar umsóknir eru í vinnslu hjá Sjúkratryggingum Íslands sem sjá um að greiða bæturnar. Íslenska ríkið er hins vegar ábyrgt fyrir tjóni vegna bólusetninga.
RÚV hafði eftir Ingibjörgu K. Þorsteinsdóttur, sviðsstjóra hjá Sjúkratryggingum Íslands að það taki tíma að vinna úr umsóknum, þar sem það þarf að rannsaka hvert tilfelli fyrir sig og fylgjast með þeim auakverkunum sem fólk hefur orðið fyrir. Þá þarf að meta hvort líkamlegt tjón vegna bólusetningar sé varanlegt eða hvort um sé að ræða tímabundnar aukaverkanir.
Ingibjörg segir að SÍ hafi fengið aðstoð frá sérfræðingum á Landsspítalanum við mat á líkum á því að líkamstjón fólks sé afleiðing bólusetningar vegna kórónuveiru og hvort tjónið sé varanlegt.
Þá hefur Lyfjastofnun Íslands borist alls 6178 tilkynningar um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar vegna kórónuveiru, en 300 af þeim eru alvarlegar.